Dagsetning Tilvísun
7. febrúar 1996 717/96
Fornleifastofnun Íslands – virðisaukaskattur
Vísað er til bréfs yðar til skattstjórans í Reykjavík dags. 11. júlí 1995 og framsent var ríkisskattstjóra þann 16. ágúst s.l.
Í bréfi yðar er starfsemi stofnunarinnar lýst og síðar spurst fyrir um hugsanlega virðisaukaskattsskyldu hennar. Bréfinu fylgdi einnig ljósrit af skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina F ásamt staðfestingu dómsmála-ráðuneytisins á henni.
Í 2. gr. skipulagsskrár fyrir sjálfseignarstofnunina F segir: “Tilgangur stofnunarinnar er að efla rannsóknir og útgáfustarfsemi á sviði fornleifafræði og skyldra greina. Stofnunin skal eiga og reka safn rannsóknargagna og upplýsinga um íslenskar fornleifar. Í hennar nafni skal stunda grunnrannsóknir í fornleifafræði og standa að útgáfu á afrakstri þeirra.”
Ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga tekur til starfsemi stofnunarinnar þ.e. rannsókna og útgáfustarfsemi. Að áliti ríkisskattstjóra er F því skattskyld samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga, enda um sjálfstæða útgáfu- og rannsóknarstarfsemi að ræða og innheimta ber virðisaukaskatt af allri seldri þjónustu stofnunarinnar.
Í bréfi yðar kemur fram að helstu tekjur til fornleifaskráningar verði styrkir frá ýmsum sjóðum og greiðslur frá sveitarfélögum. Um það vill ríkisskattstjóri upplýsa að styrkþegi skal innheimta virðisaukaskatt af styrkjum ef styrkveitandi krefst þjónustu eða einhvers endurgjalds fyrir styrkinn, þ.e. þá er um þjónustukaup að ræða.
Samkvæmt 5. tölul. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru sjálfseignarstofnanir skattskyldar skv. lögunum enda reki þær atvinnustarfsemi. Að áliti ríkisskattstjóra er stofnunin skattskyld skv. þeim lögum.
Beðist er velvirðingar á því, hversu lengi hefur dregist að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir
Friðgeir Sigurðsson