Dagsetning Tilvísun
14. apríl 1992 399/92
Fullnægjandi skil á virðisaukaskatti.
Með bréfi yðar, dags. 26. mars sl., er þeirri spurningu beint til ríkisskattstjóra hvort innheimtumanni sé heimilt að beita viðurlögum og vöxtum ef gerð hafa verið skil á virðisaukaskatti með þar til gerðum gíróseðlum í banka, sparisjóði eða pósthúsi fyrir lokun á gjalddaga.
Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti, teljast skil á virðisaukaskatti fullnægjandi ef:
- Greitt er í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga.
- Greitt er hjá innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga. Innheimtumenn virðisaukaskatts eru tollstjórinn í Reykjavík, sýslumenn og bæjarfógetar í kaupstöðum, bæjum og sýslum og lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli.
- Póstlögð greiðsla hefur borist innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga.
Jafnframt er nauðsynlegt að allar tilskildar upplýsingar komi fram á skýrslu og hún sé undirrituð af skattaðila eða ábyrgum starfsmanni hans.
Ekki skal beita álagi ef skil á virðisaukaskatti eru fullnægjandi samkvæmt framansögðu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.