Dagsetning                       Tilvísun
7. júní 1993                            482/93

 

Geymsla virðisaukaskattsbifreiðar við heimahús

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. febrúar 1993 þar sem að leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að geyma virðisaukaskattsbifreið í yðar eigu við lögheimili yðar vegna sólarhringsneyðarþjónustu við húseigendur og bifreiðaeigendur.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt kemur fram að ökutæki skuli ekki talið notað eingöngu vegna sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu ef það er notað af eiganda þess eða starfsmanni hans til einkanota þ.m.t. til aksturs milli heimilis og vinnustaðar.

Ríkisskattstjóri túlkar ákvæði reglugerðarinnar þannig að með því að geyma bifreiðina fyrir utan heimahús vegna bakvakta, neyðarþjónustu eða slíks sé um misnotkun bifreiðarinnar að ræða og leiði slíkt að öllu jöfnu til þess að allur innskattur af öflun bifreiðarinnar sé bakfærður. Þess má þó geta að heimilt er að geyma bifreið við heimahús eiganda ef hann hefur ekki fasta starfsstöð annars staðar.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson