Dagsetning Tilvísun
16. nóv. 1990 171/90
Gildissvið 7. tölul. l. mgr. 12. gr. vsklaga.
Með bréfi yðar, dags. 5. september 1990, er þess óskað að ríkisskattstjóri endurskoði þá túlkun sína á gildissviði undanþáguákvæðis ?. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt, sem fram kom í bréfi embættisins til yðar, dags. 14. apríl 1990, að ákvæðið taki aðeins til sölu til útgerðaraðila, en eigi ekki við þegar undirverktakar selja þjónustu sína.
Það leiðir af undirstöðureglum laga um virðisaukaskatt að seljandi vöru eða skattskyldrar þjónustu þarf ekki að ákveða hverjum skuli selt með skatti og hverjum ekki. Þess í stað hefur skráður kaupandi frádráttarrétt þegar kaupin varða skattskylda starfsemi hans. Kaupandinn er sá aðili sem þekkir fyrirhuguð not hins keypta og eðlilegast þykir að hann beri jafnframt ábyrgð á meðferð skattsins.
Frá þessu er vikið í þeim tilvikum sem greind eru í 12. gr.vsklaga. Þar er tiltekin vara og þjónusta undanþegin skattskyldri veltu – oftast þegar selt er við nánar tilgreinar aðstæður en í nokkrum tilvikum án slíkra skilyrða. Dæmi um fyrri flokkinn eru 5.og 7. tölul.1mgr. en 9.og 10. tölul.1. mgr.(sala tímarita o.fl., salabóka á íslenskri tungu) eru dæmi um síðari flokkinn.
Vegna þess að hér er að finna afbrigði frá meginreglu virðisaukaskattslaga, eru gerðar kröfur um að seljandi geti sannað með bókhaldsgögnum sínum að honum hafi verið heimilt að halda viðskiptunum utan skattskyldrar veltu, sbr. l. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Þar er ríkisskattstjóra falið að setja reglur um hvaða gögn seljandi skuli varðveita í þessu sambandi. Minnt skal á að í 19. gr. vsklaga er kveðið á um að sala skattskyldra aðila skuli teljast skattskyld að því marki sem aðilar þessir geti ekki sýnt fram á með bókhaldi og gögnum sem þeim er skylt að halda að salan sé undanþegin virðisaukaskatti.
Samkvæmt undanþáguákvæði 7. tölul. l. mgr. 12. gr. vskl. er tiltekin vinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra undanþegin skattskyldri veltu. Sama gildir um sölu á efni og vörum sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu.
Að áliti ríkisskattstjóra ber að skýra ákvæðið þannig að það eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar beint samningssamband er á milli verkkaupa og verktaka.
Þessi niðurstaða er í fyrsta lagi byggð á orðalagi ákvæðisins (sbr. auðkennd orð hér að ofan), sem ber að túlka þröngt í samræmi við viðurkennd lögskýringarsjónarmið í skattarétti. Í öðru lagi verður að hafa i huga að seljandi sem ekki stendur i beinu samningssambandi við verkkaupa getur ekki ábyrgst að rétt hafi verið staðið að meðferð skattsins.
Þær aðferðir sem stungið er upp á í bréfi yðar fullnægja ekki kröfum ríkisskattstjóra um að verkkaupi staðfesti með áritun sinni á afrit reiknings að vinnan varði skip hans. Loks benda þau lagarök sem búa að baki ákvæðinu og gerð var grein fyrir í bréfi RSK, dags. 14. apríl sl., í sömu átt, sérstaklega þegar höfð er í huga sú regla 4. mgr. 24. gr. laganna að fyrirtæki sem að jafnaði hafa lægri útskatt en innskatt vegna þess að verulegur hluti veltu þeirra er undanþeginn geta fengið heimild skattstjóra til að nota skemmra uppgjörstímabil.
Í bréfi yðar er vísað til framkvæmdar í Danmörku í þessu sambandi og upplýst að sambærileg undanþága í dönskum virðisaukaskattslögum taki einnig til undirverktaka. Sú skýring danskra toll- og skattyfirvalda virðist fyrst koma fram í upphafi þessa árs, sbr. Tidsskrift for Skatteret 1990, bls. 36, – þ.e. eftir 23 ára framkvæmd þar í landi. Til fróðleiks skal þess getið að sambærileg undanþága í 17. gr. norsku virðisaukaskattslaganna er framkvæmd með sama hætti og hér á landi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.