Dagsetning                       Tilvísun
2. des. 1992                            433/92

 

Góðgerðarstarfsemi, sala gjafakarta í umboðssölu.

Með bréfi yðar, dags. 4. nóvember 1991, er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort sala gjafakorta í umboðsölu sé undanþegin virðisaukaskatti.

Í bréfi yðar er umboðssölu þessari og fyrirhugaðri framkvæmd hermar lýst á eftirfarandi hátt:

„Nú hafa nokkrar blóma- og bókaverslanir sýnt áhuga á að selja gjafakort okkar í umboðssölu. Áætlað er að kortin liggi frammi í verslununum, sérstaklega auglýst til styrktar S. Framkvæmd umboðssölunnar hófum við hugsað okkur að verði þannig að hver verslun kvitti fyrir móttöku ákveðins fjölda korta. Síðan muni starfsmaður okkar fara reglulega í verslanirnar og telja hve mörg kort hafi selst og fylla á á ný. Á staðnum verði gert upp og verslunin fái umboðslaun fyrir hvert selt kort. Fyrirhugað verð á korti er 200kr. og verslunin fái 50kr. í umboðslaun fyrir hvert selt kort. Ágóði kortasölunnar ef einhver verður mun svo að öllu leiti fara í rekstur K. “

Af þessu tilefni sendist yður hér með ljósrit af bréfi ríkisskattstjóra, dags. 6. desember 1990, til allra skattstjóra, þar sem fram kemur túlkun ríkisskattstjóra á reglugerð nr. 564/l989 um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi. Hjálagt fylgja einnig leiðbeiningar um virðisaukaskatt af góðgerðarstarfsemi.

Með vísan til kafla 3 í framangreindum leiðbeiningum skal sérstaklega bent á eftirfarandi atriði sem skilyrði undanþágu:

Einungis er heimilt að veita undanþágu frá virðisaukaskatti ef um óstaðbundina sölu er að ræða, en ekki er heimilt að veita undanþágu til sölu sem fer fram á föstum sölustað.

Ennfremur skal bent á að einungis er heimilt að veita undanþágu vegna einnar sölustarfsemi í hverjum mánuði og að slík starfsemi má ekki vara lengur en þrjá daga í senn. Ef aðili rekur slíka sölustarfsemi einu sinni á ári þá má hún ekki vara lengur en 15 daga í senn.

Að áliti ríkisskattstjóra uppfyllir umboðssala sú sem um ræðir í bréfi yðar ekki ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 564/1989 og er því ekki um undanþegna starfsemi að ræða.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattsjóra.

Vala Valtýsdóttir.