Dagsetning                       Tilvísun
18. nóvember 1993                            575/93

 

Heilbrigðisþjónusta

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. október 1993, til fjármálaráðuneytis, sem framsent var til ríkisskattstjóra þann 25. október s.l., þar sem kemur fram að F hafi snúið sér til heilbrigðisráðuneytis vegna ágreinings um virðisaukaskatts-skyldu þeirra.

Í bréfi yðar kemur fram að samkvæmt beiðni F staðfesti ráðuneytið að fótaaðgerðarfræðingar séu löggilt heilbrigðisstétt, sbr. reglugerð nr. 184/1991, um fótaaðgerðarfræðinga, og lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta. Löggiltir fótaaðgerðarfræðingar meðhöndli samkvæmt reglugerðinni eingöngu fótamein og fari sú meðferð fram bæði á eigin stofum og innan heilbrigðisstofnana. Meðferðin falli undir sömu lög og reglugerð, hvort sem hún er framkvæmd á eigin stofu eða á stofnun. Fótaaðgerðarfræðingar megi þó ekki taka til meðferðar, án samráðs við lækni, einstakling með önnur augljós sjúkdómseinkenni, s.s. sykursýki, hjarta-, blóð-, og æðasjúkdóma. En það breyti því ekki að fótaaðgerðir sem unnar eru án samráðs við lækni falla undir ákvæði fyrrnefndra laga og reglugerðar.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að við ákvörðun þess hvort tiltekin heilbrigðisþjónusta falli undir undanþáguákvæði 1. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hefur starfsemin, að mati ríkisskattstjóra, þurft að uppfylla tvenn skilyrði, þ.e.a.s. að (1) um sé að ræða þjónustu aðila sem falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðismál, og (2) að almennt sé þjónusta veitt einstaklingum á grundvelli tilvísunar frá lækni og/eða hún greidd af Tryggingarstofnun ríkisins eða sjúkrasamlagi að hluta eða að fullu.

Þessi túlkun virðist ekki vera raunhæf viðmiðun lengur. T.d. gæti sú ákvörðun stjórnvalda að hætta að endurgreiða tiltekna heilbrigðisþjónustu í gegnum Tryggingar-stofnun ríkisins orðið til þess að þjónustan yrði ekki lengur talin eiginleg heilbrigðis-þjónusta í skilningi virðisaukaskattslaga og því skattskyld. Einnig getur orðið skattaleg mismunun milli sambærilegra heilbrigðisstétta, ef aldrei hefur þótt ástæða til að taka viðkomandi þjónustu inn í endurgreiðslukerfi Tryggingastofnunar.

Við túlkun á hugtakinu „önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ í 1. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga þykir rétt miða við að (1) þjónusta aðila falli undir lög nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, eða sérlög um heilbrigðis-mál, og (2) að þjónusta þessara aðila felist í meðferð á líkama sjúklings til lækninga, hjúkrunar eða sambærilegrar meðferðar.

Þar sem þjónusta fótaaðgerðarfræðinga virðist uppfylla ofangreind skilyrði, þá er hún undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskatts-laga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson