Dagsetning                       Tilvísun
8. feb. 1994                            614/94

 

Innflutningur á forritum o.fl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. júlí sl., þar sem óskað er eftir upplýsingum um meðferð virðisaukaskatts af innflutningi forrita o.fl.

Í bréfi yðar er því haldið fram að ekki beri að skila virðisaukaskatti af öllum innflutningi á forritum og fari það eftir því með hvaða hætti vara eða þjónusta er flutt inn til landsins. Annars vegar eru forrit sett á tölvudisklinga og send til landsins eftir almennum leiðum og eiga þá við almennar reglur um innflutning í tolli. Hins vegar eru sams konar forrit send í gegnum símalínu og fær kaupandi þau í hendur annað hvort með eigin móthaldi eða með aðstoð Pósts og síma.

Tölvudisklingur telst vera vara í skilningi virðisaukaskattslaga og fer um innflutning slíkrar vöru eftir almennum reglum og er því virðisaukaskattur innheimtur við tollafgreiðslu.

Aftur á móti er slík framkvæmd ekki möguleg í þeim tilvikum þegar forrit eða annað efni er sent á milli tölva landa á milli enda er þá um að ræða sölu á þjónustu milli landa og tæknilega ekki unnt að tollafgreiða slíka þjónustu eftir eðlilegum leiðum. Í þessu tilviki gildir reglugerð nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, með síðari breytingum.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. þeirrar reglugerðar skal sá sem kaupir þjónustu skv. 2. eða 3. gr. reglugerðarinnar (m.a. tölvuþjónustu, aðra gagnavinnslu og upplýsingamiðlun), erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi, greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar. Af þessu leiðir að einstaklingar og þeir rekstraraðilar sem selja vöru eða þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti skulu greiða virðisaukaskatt af framangreindri þjónustu.

Virðisaukaskattsskyldir aðilar eru aftur á móti undanþegnir greiðslu skattsins ef þeir gætu að fullu talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar.

Þeir sem eru skyldir til að greiða virðisaukaskatt af framangreindri þjónustu skulu ótilkvaddir tilkynna um kaup á þjónustunni á sérstökum eyðublöðum (RSK 10.24) og greiða virðisaukaskattinn hjá innheimtumanni ríkissjóðs innan þrjátíu daga frá því að þjónustu var veitt viðtaka eða greiðsla innt af hendi.

Upplýsingar um kaupin skulu varðveitt í bókhaldi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir