Dagsetning                       Tilvísun
1. feb. 1994                            613/94

 

Innflutningur, sala og leiga happdrættisvéla

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. janúar 1994 þar sem varpað er fram nokkrum spurningum um virðisaukaskatt af innflutningi. Skal leitast við að svara spurningum yðar í þeirri röð er þær koma fram.

Í bréfi yðar kemur fram að félagið I sé bandarískt félag sem m.a. leigir happdrættisvélar til aðila víða um heim. H hefur gert leigusamning við I þar sem I leigir H vélarnar og tiltekinn hugbúnað sem þeim tengist. I hefur engin afskipti af notkun vélanna eftir að þær koma til Íslands, en ábyrgist þó að að leggja fram hæfilegt magn varahluta í vélarnar og hafa til reiðu sérfræðinga sem geta komið til þjónustu ef eftir er kallað.

Á Íslandi er skráð hlutafélag, I sem er dótturfélag I . Þegar vélarnar voru fluttar til Íslands í nóvember/desember 1993, var dótturfélagið kaupandi. Dótturfélagið greiddi virðisaukaskatt og önnur gjöld við innflutning og hefur sótt um endurgreiðslu hans. Ekki hefur enn komið til leigugreiðslna frá H til I eða I og því enn ófrágengið hvert form verði í því efni

Spurt er á erlendi aðilinn, ef hann er eigandi útbúnaðarins, að greiða virðisaukaskatt við innflutning til Íslands?

Svar:   Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt skal greiða virðisaukaskatt af innflutningi vöru og þjónustu og skal skatturinn innheimtur af tollverði vörunnar, sbr. 34. gr. sömu laga. Jafnframt skal tekið fram að samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaga þá ber að innheimta virðisaukaskatt af útleigu lausafjármuna, þ.m.t. leigu happdrættisvéla þeirra sem nefndar eru í bréfi yðar.

Ef innflutningurinn er virðisaukaskattsskyldur við innflutning er þá endurgreiðsluheimild á virðisaukaskatti fyrir hendi til erlenda aðilans?

Svar:   Engin ákvæði virðisaukaskattslaga né ákvæði reglugerða sem settar hafa verið vegna þeirra heimila endurgreiðslu í þessu tilviki.

Á það skal þó bent að þeir sem inna af hendi skattskylda þjónustu hér á landi í atvinnuskyni skulu tilkynna um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra. Þetta gildir einnig um erlend fyrirtæki. Hafi erlent fyrirtæki, sem hefur með höndum skattskylda starfsemi hér á landi, ekki starfsstöð hérlendis (útibú eða dótturfyrirtæki) hvílir skráningar- og skattskyldan á umboðsmanni þess eða öðrum innlendum aðila sem er í fyrirsvari fyrir það, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.

Erlent fyrirtæki sem selur lausafjármuni á leigu til hérlends aðila, er skráningar- og skattskylt hérlendis samkvæmt framansögðu ef það flytur viðkomandi leigumun sjálft inn til landsins. Þegar þannig hagar til er talið að leigustarfsemi fyrirtækisins sé innt af hendi hérlendis.

Aðili, sem skráður er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, getur talið til innskatts virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum er varða sölu hans á vörum og skattskyldri þjónustu, þ.m.t. þann virðisaukaskatt sem hann hefur greitt í tolli við innflutning. Ef I. selur I vélarnar og I er með umboðsmann hér á landi fer með þau viðskipti eftir reglum virðisaukaskattslaga, þ.e. umboðsmaðurinn getur dregið frá greiddan virðisaukaskatt sem innskatt en honum ber þá að innheimta útskatt af sölu sinni.

Ef I. selur búnaðinn til I til sömu notkunar án þess að búnaðurinn fari nokkru sinni úr landi. Hvað gerist þá varðandi virðisaukaskatt með tilliti til 4. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt?

Svar:   Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga telst vara sem seld er úr landi ekki til skattskyldrar veltu. Til þess að heimilt sé að halda viðskiptum utan skattskyldrar veltu skv. 1.tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga, þá verður að vera hægt að sanna sölu úr landi, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Seljandi verður þannig að hafa í bókhaldi sínu eða bókhaldsgögnum eftirtalin skjöl:

Afrit eigin sölureiknings vegna hinnar útfluttu vöru.

Afrit útflutningsskýrslu í því formi sem ákveðið er skv. tollalögum, áritaða af         tollyfirvöldum             um útflutning, svo og kvittun flutningsaðila fyrir móttöku    sendanda til flutnings úr landi.

Að framansögðu er ljóst að til þess að endurgreiðsla sé heimil þá verða vélarnar að fara úr landi og lögmælt sönnun þess efnis verður að liggja fyrir, annars er ekki um eiginlegan útflutning að ræða.

Spurt var hvort 4. mgr. 12. gr. gæti átt við varðandi sölu happdrættisvélanna. Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga má ekki telja til skattskyldrar veltu eignayfirfærslu vörubirgða, véla og annarra rekstrarfjármuna þegar yfirfærslan á sér stað í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki eða hluta þess og hinn nýi eigandi hefur með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur samkvæmt virðisaukaskattslögum. Það skilyrði er sett að kaupandi hafi með höndum skráðan eða skráningarskyldan rekstur samkvæmt virðisaukaskattslögum en slíku er ekki fyrir að fara með I. Bent skal á það sem áður sagði um það ef umboðsmaður er hér á landi fyrir hið erlenda fyrirtæki.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.