Dagsetning Tilvísun
25. mars 1997 791/97
Innskattsfrádráttur byggingaraðila sem byggja á eigin kostnað til leigu eða sölu.
Að gefnu tilefni þykir ríkisskattstjóra rétt að koma á framfæri þeim reglum er gilda um innskattsfrádrátt þeirra sem byggja á eigin kostnað til leigu eða sölu. Þar sem ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, taka ekki af skarið í þeim efnum er varða innskattsfrádrátt af ýmsum föstum kostnaði þeirra sem byggja á eigin kostnað til leigu eða sölu verður farið nánar yfir þessi atriði hér.
Í fyrsta lagi skal tekið fram að byggingaraðilar sem byggja á eigin kostnað til leigu eða sölu teljast vera í blandaðri starfsemi, þ.e. þeir hafa bæði með höndum skattskylda (byggingarstarfsemi) og skattfrjálsa (sala fasteigna) starfsemi. Af þeim sökum hafa þessir aðilar einungis hlutfallslegan frádrátt af þeim kostnaði sem stofnað er til bæði vegna skattskylds þáttar í starfsemi aðila og skattfrjáls þáttar, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Sem dæmi um slíka hlutföllum er eftirfarandi:
Velta
Verktakavinna fyrir þriðja aðila……………………………………………………………..1.000.000
Skattverð eigin vinnu……………………………………………………………………………1.000.000
Sala íbúða……………………………………………………………………………………………8.000.000
Heildarvelta (án vsk.)…………………………………………………………………………..10.000.000
Frádráttarprósentan verður í þessu tilviki 20%. Hjá byggingaraðilum sem byggja á eigin kostnað til leigu eða sölu er hlutfallslegur frádráttur á m.a. eftirfarandi kostnaði:
símakostnaði, endurskoðun, reikningslegri aðstoð, skrifstofukostnaði og húsnæðis-kostnaði.
Hins vegar er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af þóknun fasteignasala vegna sölu íbúðarhúsnæðis enda varðar sá kostnaður einungis hinn skattfrjálsa þátt starfseminnar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.