Dagsetning Tilvísun
27. sep. 1990 135/90
Innskattsfrádráttur vegna kaupa snjósleða o.fl.
Með bréfi yðar, dags. 20. janúar 1990, beinið þér þeirri fyrirspurn til ríkisskattstjóra hvort bóndi fái endurgreiddan virðisaukaskatt vegna kaupa sinna á (1) vöruflutningabifreið undir 3,5 tonnum, (2) vegna kaupa á snjósleða og (3) vegna kaupa á fjórhjóli.
Til svars þeim þætti fyrirspurnarinnar sem varðar bifreiðar vísast til leiðbeiningarits ríkisskattstjóra, „Virðisaukaskattur í landbúnaði“ (RSK 11.17), bls. 18.
Heimilt er að telja virðisaukaskatt vegna öflunar, leigu og reksturs snjósleða og fjórhjóla til innskatts að því leyti sem tæki þessi eru notuð vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Skattstjóri metur í einstökum tilvikum hvort innkaupum er réttilega skipt milli rekstrar og einkanota. Ákvörðun skattstjóra er kæranleg skv. 29. gr. laga um virðisaukaskatt.
Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts, skal skattstjóri taka mið af þeim reglum og þeirri framkvæmd sem mótast hefur við tekjuskattsálagningu þegar hann leggur mat á það hvort innkaupum er réttilega skipt milli rekstrar og einkanota.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.