Dagsetning Tilvísun
17. janúar 1994 608/94
Innskattshæfi afreikninga og form sölureikninga
Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. desember 1993, þar sem óskað er upplýsinga um hvort meðfylgjandi afreikningur teljist fullnægjandi fylgiskjal til innskattsfærslu, eða hvort afurðastöðin verði að gera sérstakan reikning fyrir flutningskostnaði og vegna reksturs kynbótastöðvar.
Þá er spurst fyrir um hvaða kröfur séu gerðar til söluskráningarkerfis hjá bændum sem selja einstaka sinnum til annarra en afurðastöðva og hvort ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um fyrirframáprentaða sölureikninga eigi undantekningarlaust við í slíkum tilfellum, hvort kaupandi megi hugsanlega gefa út afreikning til bóndans eða hvort ákvæði um annars konar sölukerfi geti átt við.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að í 6. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, segir, að afreikningar sem þeir sem taka framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu skulu gefa út, geti komið í stað reikninga skv.1. mgr. 3. gr., en í 1. mgr. 3. gr. er talað um þá sölureikninga sem skylt er að gefa út við sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Þá segir í 3. ml. 6. gr. að ákvæði 4. og 5. gr., sem fjalla um þau formskilyrði sem reikningar skv. 3. gr. þurfa að fullnægja, gildi um afreikninga eftir því sem við á. Þar sem afreikningar sem fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerð nr. 50/1993 geta komið í stað reikninga sem einir og sér geta verið fullnægjandi fylgiskjöl innskattsfærslu, verður að telja að slíkir afreikningar geti á sama hátt verið fullnægjandi fylgiskjöl innskattsfærslu.
Í l. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, kemur fram að upplýsingar um nafn, kennitölu og skráningarnúmer seljanda skuli vera áprentaðar á allt upplag reikningseyðublaða áður en þau eru tekin í notkun. Smærri aðilar sem nota óverulegt magn reikningseyðublaða á hverju ári mega þó stimpla nafn kennitölu og vsk.-númer á allt upplag og öll eintök reikningseyðublaða sinna, enda sé allt upplagið fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð, annaðhvort af prentsmiðju eða í tölvuprentara. Aðili telst aftur á móti ekki hafa uppfyllt formreglurnar með því að handskrifa eða vélrita nafn, kennitölu og vsk.-númer á reikningseyðublöðin.
Ríkisskattstjóri getur einnig, ef aðstæður krefjast þess, heimilað aðila að víkja frá einstökum ákvæðum 3. – 9. gr. reglugerðarinnar, enda sýni aðili fram á öruggt skráningar- og eftirlitskerfi með sölureikningum eða gefi út reglur, sem ríkisskattstjóri telur fullnægjandi, um skráningu sölureikninga, sbr. l. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993.
Vegna fyrirspurnar um hugsanlega útgáfu annarra en afurðastöðva á afreikningum er rétt að taka fram að reglan um afreikninga í 6. gr. reglugerðarinnar er undantekningarregla og túlkast því þröngt. Þannig takmarkast reglan eingöngu við þá aðila sem taka framleiðslu annarra til vinnslu eða endursölu, en á ekki við um aðra aðila sem kaupa vörur af bændum.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir