Dagsetning                       Tilvísun
11. september 1997                             823/97

 

Innskattur af mat og gistingu fyrir flugfarþega í millilandaflugi o.fl.

Vísað er til bréfs yðar dags. 22. júlí sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt af mat og gistingu sem flugfarþegum er veitt vegna óþæginda sem þeir verða fyrir vegna seinkunar eða truflana á flugi.

Í bréfi yðar segir jafnframt:

“Félagið hefur heimild til að krefja endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna gistingar erlendra áhafna á Íslandi. Inn í gistiverðinu er oft morgunverður. Er heimilt að krefja endurgreiðslu hans eða verður félagið að fara fram á aðgreinda reikninga vegna morgunverðar annars vegar og gistingar hins vegar.”

Til svars erindinu skal fyrst tekið fram að flugfélagið er skráð frjálsri skráningu vegna fólksflutninga á milli landa skv. reglugerð nr. 63/1994, um frjálsa skráningu vegna fólksflutninga á milli landa. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar skulu aðilar sem fengið hafa frjálsa skráningu samkvæmt reglugerðinni ekki innheimta útskatt af fargjöldum vegna fólksflutninga á milli landa. Í 3. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um innskattsfrádrátt kemur fram að sömu reglur gildi um innskattsfrádrátt þeirra sem fengið hafa frjálsa skráningu skv. reglugerðinni og annarra aðila sem skattskyldir eru samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Í 3. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga eru talin upp þau innkaup þar sem innskattsfrádráttur er óheimill og í 1. tölul. málsgreinarinnar kemur fram að óheimilt sé að telja til innskatts aðföng er varða kaffistofu eða mötuneyti skattaðila og hvers konar fæðiskaup hans. Samkvæmt framansögðu er því óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna fæðiskaupa til starfsmanna, þ.m.t. áhafna.

Til svars þeim hluta fyrirspurnar yðar sem víkur að aðgreiningu á sölureikningum skal tekið fram að skylt er að aðgreina skattskylda sölu eftir skatthlutföllum, þannig að heildarverð vöru og þjónustu ásamt virðisaukaskatti komi sérstaklega fram vegna hvors skatthlutfalls, sbr. 4. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Samkvæmt 15. gr. sömu reglugerðar skulu skjöl, sem færsla innskatts í bókhaldi er byggð á, uppfylla skilyrðið um aðgreiningu sölu eftir skatthlutföllum.

Hvað varðar kaup á mat og gistingu fyrir farþega vegna seinkunar eða truflana á flugi þá er almennt óheimilt að telja virðisaukaskatt vegna slíkra aðfanga til innskatts, sbr. 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 5. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Þrátt fyrir framangreint er það álit ríkisskattstjóra að ef flugfélag er skuldbundið til að greiða fyrir mat og gistingu flugfarþega í ofangreindum tilvikum á grundvelli samninga þar um eða samkvæmt alþjóðlegum samningum þá sé því heimilt að telja virðisaukaskatt vegna þeirra aðfanga til innskatts.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.