Dagsetning Tilvísun
5. mars 1992 392/92
Innskattur af verðlaunum í áskrifendagetraun.
Með bréfi yðar, dags. 20. desember sl., er leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort útgefanda dagblaðs sé heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af kaupum fólksbifreiða sem notaðar eru í vinninga í áskrifendagetraun blaðsins. Fram kemur að getraunin er þáttur í markaðsátaki til að auka áskrifendafjölda dagblaðsins.
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 5. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, er skráðum aðila óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða gjafir. Gjafir sem bersýnilega eru gefnar og notaðar í auglýsingaskyni eru þó frádráttarbærar enda sé um að ræða verðlítinn smávarning. Umræddar bifreiðar eru gefnar í auglýsingaskyni en þær verða ekki taldar „verðlítill smávarningur“ í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.
Einnig skal bent á að happdrætti og getraunastarfsemi er utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaga, sbr. 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Virðisaukaskatt sem greiddur er af aðföngum til slíkrar starfsemi má ekki telja til innskatts, sbr. 4. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 16. gr. laganna.
Loks skal vísað til þess að skv. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt er ekki heimilt að telja virðisaukaskatt af öflun fólksbifreiða til innskatts nema lokamálsgrein 16. gr. eigi við.
Með vísan til framanritaðs er það álit ríkisskattstjóra að ekki sé heimilt að telja virðisaukaskatt af öflun umræddra bifreiða til innskatts.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.