Dagsetning                       Tilvísun
5. desember 1996                            764/96

 

Innskattur af vinningum í markaðsátaki

Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. október 1996 og símtals við yðar nokkru síðar, þar sem spurst er fyrir um innskattsfrádrátt vegna vinninga sem fyrirtæki yðar hyggst veita viðskiptavinum.

Í bréfi yðar kemur fram að fyrirtæki yðar hafi áhuga á því að gera sérstakt markaðsátak í verslunum sínum. Átakið yrði fólgið í því að viðskiptavinir geti dottið í lukkupottinn ef þeir fylla út þar til gerða seðla sem dregið yrði úr síðar. Meðal vinninga gætu verið ýmsar smávörur úr versluninni sem og aðkeyptir stærri og meiri hlutir, t.d. bifreiðar og utanlandsferðir. Í ykkar augum er þetta hluti af markaðsátaki verslananna en hvorki gjafir né happdrætti.

Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á annað en að um gjafir sé að ræða, því umræddir vinningar eru ekki ætlaðir öllum viðskiptavinum sem þess óska.

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 5. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er skráðum aðila óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða gjafir. Gjafir sem bersýnilega eru gefnar og notaðar í auglýsingaskyni eru þó frádráttarbærar enda sé um að ræða verðlítinn smávarning. Með verðlitlum smávarningi er átt við lyklakippur, ódýra penna o.þ.h. hluti sem eru ætlaðir öllum viðskiptavinum. Ríkisskattstjóri telur að vörur þær sem þér nefnið í bréfi yðar og eru úr verslunum yðar geti ekki fallið undir þá skilgreiningu.

Jafnframt skal tekið fram að til skattskyldrar veltu telst afhending þeirra vara sem afhentar eru úr verslunum í þessum tilgangi þar sem virðisaukaskattur hefur verið talinn til innskatts, sbr. 1. mgr. 11. gr. virðisaukaskattslaga.

Hvað fólksbíla varðar skal vísað til þess að skv. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt er ekki heimilt að telja virðisaukaskatt af öflun fólksbifreiða til innskatts nema 5. mgr. eigi við þ.e. að einungis þeim aðilum sem hafa með höndum sölu eða leigu bifreiða er heimill innskattsfrádráttur vegna þeirra viðskipta.

Hvað varðar gjaldfærslu vinninganna þá eru viðmiðanir laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með áorðnum breytingum nokkuð aðrar en virðisauka- skattslaga. Þannig má ætla að gjaldfærsla væri heimil skv. 31. gr. framangreindra laga, sem auglýsingakostnaður.

Að lokum skal þess getið að vinningar í happdrættum og keppnum eru almennt skattskyldir hjá móttakanda, skv. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt niðurlagi þeirrar lagagreinar eru þó verðlitlir vinningar undanþegnir skattskyldu. Miðað við lýsingu í bréfi yðar er ekki óhugsandi að einhver hluti þeirra vinninga sem þar er lýst kunni að falla undir þetta undanþáguákvæði.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir

Friðgeir Sigurðsson