Dagsetning                       Tilvísun
4. júlí 1994                            637/94

 

Innskattur o.fl.

Vestfjarðaumdæmi, en framsent til embættis ríkisskattstjóra og móttekið þar, dags. 16. júní 1993, óskið þér eftir leiðbeinandi upplýsingum um meðferð virðisaukaskatts í eftirfarandi tilvikum:

1. Á að færa innskatt eins og hann er útreiknaður á reikningi seljanda þegar um er að ræða villu í reikningi eða á að líta svo á að í heildarupphæð með vsk sé 19.68% vsk innifalinn, án tillits til villu?

Svar: Þeir sem tilgreina of háan virðisaukaskatt á reikningum sínum eða virðisaukaskatt af viðskiptum sem ekki eru skattskyld skulu skila skattinum í ríkissjóð, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum. Verði leiðréttingu komið við gagnvart kaupanda fellur skildaskylda samkvæmt þessari málsgrein niður. Í 19. gr. kemur fram að vanræki aðili að taka virðisaukaskatt af vöru eða þjónustu sem skattskyld er samkvæmt lögum þessum ber honum eigi að síður að standa skil á skattinum. Verði kaupandi var við skekkju á útreikningi virðisaukaskatts ber honum að snúa sér til seljanda og óska eftir leiðréttingu. Ef seljandi innheimtir of lágan virðisaukaskatt heimilar það ekki kaupanda að innskatta hærri virðisaukaskatt en þann sem hann greiddi til seljanda. Ef seljandi innheimtir of háan virðisaukaskatt og skilað honum getur kaupandi innskattað þann virðisaukaskatt, en að öðru leyti ætti að koma fram leiðréttingu, sbr. 3. mgr. 22. gr.

2. Er hægt að innskatta virðisaukaskatt af reikningi sem gefinn er út á A (tjónvald) vegna viðgerðar á tjóni á bifreið B (tjónþola) sem vsk-bifreið A olli?

Svar: Hér greiðir fyrirtæki tjónvalds fyrir viðgerðarkostnað með virðisaukaskatti og fær reikninginn frá verkstæðinu. Viðgerðarkostnaður sá sem hér um ræðir, er í raun skaðabætur, sem bæta eiga tjónþola það fjárhagslega tjón sem hann hefði annars orðið fyrir. Virðisaukaskattur af slíkum kostnaði er ekki virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. 1. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga. Af þeim sökum er fyrirtæki tjónvalds ekki heimilt að innskatta virðisaukaskattinn af reikningnum frá verkstæðinu.

3. Innflytjandi innleysir erlenda vörusendingu í banka á síðustu dögum árs og færist innflutningurinn í bókhald sem vörukaup ársins. Eftir áramót er vsk-greiðslan innt af hendi í tolli. Á hvern hátt skal færa vsk um áramót?

Svar: Meginregla virðisaukaskattslaga er að tímamark skattskyldu er tengt afhendingu vöru eða skattskyldrar þjónustu. Það er afhending hins selda sem ræður því til hvaða uppgjörstímabils skattskylda veltan telst. Reglan kemur fram í 1. mgr. 13. gr. laganna. Í reynd er í mörgum tilvikum erfitt að meta hvenær afhending á sér stað. Því er sú skýringarregla sett, sbr. 2. mgr. 13. gr., að ef gefinn er út reikningur vegna afhendingar telst hún hafa farið fram á þeim degi sem tilgreindur er á reikningi, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afendingu. Ráða má af bréfi yðar, að um sé að ræða greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 640/1989, um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli, með breytingum skv. reglugerðum nr. 48/1990, 352/1990 og 19/1992, er greiðslufrestur af innfluttum vörum einn mánuður. Ef greiðsluskjal úr tolli er gefið t.d. út í desember yrði gjalddagi 15. janúar. Færsla virðisaukaskatts í slíku tilviki yrði miðuð við útgáfudag greiðsluskjals úr tolli, sem er desember.

4. Er félag sem fær opinbera styrki til rekstrar og selur vörur sem seljast ekki fyrir kostnaði skráningarskylt?

Svar: Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga nær skráningarskyldan til þeirra „sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu“. Við mat á því hvenær starfsemi telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við það hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði eða ekki. Starfsemi telst ekki vera í atvinnuskyni ef samanlagaðar tekjur af vörusölu og aðrar tekjur tengdar starfseminni eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Sá sem ekki uppfyllir skilyrðið um hagnað af rekstri er ekki skráningarskyldur. Í því felst jafnframt að aðili sem ekki verður talinn starfa í hagnaðarskyni á ekki rétt á skráningu. Hins vegar er félag skráningarskylt ef tekjur þess eru hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, og skiptir þá ekki máli þótt tekjurnar séu í formi styrkja frá ríki og bæ.

Beðist er velvirðingar á töf sem orðið hefur á afgreiðslu fyrirspurnar yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir