Dagsetning                       Tilvísun
10. nóv. 1994                            651/94

 

Innskattur – opinberir aðilar

Vísað er til bréfs yðar dags. 10. okt. s.l. þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því, hvort S fái endurgreiddan virðisaukaskatt af þeim hluta byggingar fyrir aldraða sem notaður verður undir virðisaukaskattsskyldan rekstur þ.e. hárgreiðslu, fótsnyrtingu, verslun, matsölu o.fl. og er vísað í fyrirspurn yðar til reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.

Í ofannefndri reglugerð er kveðið á um að opinber fyrirtæki sem hafa það að meginmarkmiði að selja skattskyldar vörur og þjónustu til annarra, skuli greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni. Þar segir einnig að starfsemi teljist vera rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum og skipti þá ekki máli í því sambandi hvort eða hve mikið ríkisstofnun eða sveitarfélag selji af slíkum vörum eða þjónustu til annarra.

Í 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt segir: „Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla mega ríki, bæjar- og sveitarfélög og stofnanir og fyrirtæki þeirra, sem skattskyld eru skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu.“

Ef sá hluti þjónusturýmis sem byggður er undir virðisaukaskattsskylda starfsemi er einungis notaður undir hana, þ.e. engin önnur starfsemi fer þar fram, er heimilaður fullur innskattsfrádráttur vegna byggingarkostnaðar, annars enginn.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir