Dagsetning                       Tilvísun
18. nóv. 1993                            578/93

 

Innskattur vegna skaðabótagreiðslna

Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. janúar 1993, þar sem óskað er eftir leiðbeiningum varðandi meðhöndlun virðisaukaskatts við uppgjör tjónabóta. Samkvæmt bréfi yðar viðhefur RR tvær mismunandi aðferðir við uppgjör tjónabóta. Annars vegar afhendir tjónþoli reikning og fær greiddan, en hins vegar kaupir RR hliðstæða vöru og afhendir tjónþola.

Til svars bréf yðar skal tekið fram að fyrirtæki sem verður fyrir tjóni á birgðum eða rekstrafjármunum, þ.m.t. fasteignum, getur talið virðisaukaskatt vegna endurnýjunar, viðgerðar o.þ.h. til innskatts eftir almennum reglum um frádrátt virðisaukaskatts í 15. og 16. gr. laga nr. 50/l988. Þetta gildir óháð því hvort það (tjónþolinn) ber tjónið sjálft eða fær það bætt að fullu eða hluta af tjónvaldi eða vátryggingafélagi.

Af frádráttarheimildinni leiðir að hugsanleg bótafjárhæð miðast við kostnað (enduröflunarverð, viðgerðarkostnað) án virðisaukaskatts. Hafi tjónþoli arðeins frádráttarrétt að hluta (sbr. reglug. um innskatt) bætist sá virðisaukaskattur, sem hann getur ekki talið til innskatts, við áðurgreinda fjárhæð.

Þegar tjónþoli er óskráður aðili (einstaklingur ekki í rekstri eða aðili undanþeginn skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 50/l988) miðast sú fjárhæð, sem tjónvaldur eða vátryggingafélag kann að greiða í bætur, við kostnað (t.d. enduröflunarverð) með virðisaukaskatti. Sama gildir þegar skráð fyrirtæki (tjónþoli) hefur ekki frádráttarrétt vegna tjónamunar (t.d. ef um er að ræða fólksbifreið fyrir færri en níu menn).

Skráður aðili (tjónvaldur) sem greiðir skaðabætur að meðtöldum virðisaukaskatti getur ekki talið þá skattfjárhæð til innskatts. Valdi skráður aðili tjóni á hlut sem hann hefur í vörslum sínum til viðgerðar getur hann þó talið virðisaukaskatt af kostnaði við viðgerð á hlutnum til innskatts. Í þessu tilviki fær tjónþoli hins vegar ekki innskattsfrádrátt.

Í sumum tilfellum leiðir þetta til þess að þegar tjónþoli er skráður aðili, sem getur talið til innskatts viðgerðarkostnað af skemmdum hlut, er tjón hans minna en ef um óskráðan aðila væri að ræða og greiðsla tjónvalds, til hins skráða aðila, sem því nemur lægri.

Eftirfarandi fimm dæmi um tjónstilvik eru nefnd í bréfi yðar:

1. Starfsmaður verður fyrir tjóni á gleraugum á vinnustað. Samkvæmt kjarasamningum á fyrirtækið að bæta tjónið.
a) Starfsmaður kaupir ný gleraugu og framvísar reikningi.
b) Fyrirtækið kaupir beint frá verslun ný gleraugu og afhendir starfsmanni.

Svar:   a) RR getur ekki talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem tilgreindur er á reikningi starfsmannsins, sbr. það sem fram kemur hér að ofan. Skylda fyrirtækisins til að bæta tjónið gerir það ekki að verkum að innskattur fáist greiddur.
b) það sama á við og um a-lið, þ.e. ekki er hægt að telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem innifalinn er í kaupverði hinna nýju gleraugna.

2. Vegna rafmagnsrofs af völdum RR skemmast matvæli í frystikistu hjá einstaklingi.
a) Tjónþoli framvísar „reikningi“ bar sem matvæli hafa verið metin en ekki endurnýjuð. .
b)   Fyrirtækið, RR, kaupir ný matvæli og afhendir tjónþola.

Svar: a) Tjón einstaklingsins er verð matvælanna með virðisaukaskatti þar sem hann á engan rétt á innskatti og er það sú upphæð sem RR þarf að greiða. Ekki fæst innskattsfrádráttur vegna þessarar skaðabótagreiðslu RR.
B) Við kaup á matvælum, í stað hinna skemmdu, greiðir RR virðisaukaskatt. RR getur þó ekki talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem það greiðir við kaup á matvælunum. Þetta kemur til af því að RR getur ekki talið til innskatts virðisaukaskatt vegna matarkaupa til handa öðrum aðila, en einnig mætti nefna hér að RR getur ekki talið til innskatts neinn þann virðisaukaskatt sem fellur á við kaup á matvælum, sbr. l. tl. 3. mgr.16. gr. virðisaukaskattslaga.

3. Vegna rafmagnsrofs af völdum RR skemmast matvæli í frysti hjá verslun (virðisaukaskattsskyldum aðila).
a) Tjónþoli framvísar „reikningi“ þar sem matvæli hafa verið metin en ekki endurnýjuð.
b) Fyrirtækið kaupir ný matvæli og afhendir tjónþola.

Svar:   a) Hér er tjón tjónþola verðmæti matvælanna án virðisaukaskatts, þar sem tjónþoli fær innskatt af kaupum á endurnýjuðum birgðum sinum. RR greiðir því tjónþola verðmæti matvælanna án virðisaukaskatts.
b) Ef RR kaupir ný matvæli og afhendir hinum skráða aðila, fær RR virðisaukaskatt af kaupum á matælunum ekki metinn til innskatts, sbr. það sem fram kemur í svari 2. b) hér að framan.

4. Starfsmaður RR slær verkfæri (óvart) í ökutæki einstaklings og brýtur rúðu.
a) Tjónþoli framvísar „reikningi“ þar sem rúðan og ísetning er metin og fær reikninginn greiddan.
b) Fyrirtækið kaupir nýja rúðu og lætur setja hana í á verkstæði.

Svar:   a) Tjón einstaklingsins er ný rúða og ísetning hennar ásamt virðisaukaskatti þar sem einstaklingurinn á ekki kost á innskatti af viðhaldi og rekstrarkostnaði bifreiðar sinnar. Það er því sú upphæð sem RR þarf að greiða. RR fær ekki metinn til innskatts þann virðisaukaskatt sem greiðist vegna viðhalds- og viðgerðarkostnaðar bifreiðar annars aðila.
b) Hér greiðir RR fyrir rúðu og ísetningu hennar með virðisaukaskatti og fær í staðinn reikning frá verkstæðinu. Sá reikningur nýtist RR ekki til innskatts þar sem um er að ræða viðhalds- og viðgerðarkostnað bifreiðar annars aðila en þess sem ætlar að nýta sér innskattsfrádráttinn.

5. Starfsmaður RR slær verkfæri (óvart) í ökutæki fyrirtækis (virðisaukaskattsskylds aðila) og brýtur rúðu.
a) Tjónþoli framvísar „reikningi“ þar sem rúðan og ísetning er metin og fær reikninginn greiddan.
b) RR kaupir nýja rúðu og lætur setja hana í á verkstæði.

Svar:   a) Hér er tjón tjónþola verðmæti rúðunnar og ísetningar á henni án virðisaukaskatts, þar sem tjónþoli fær innskatt af viðhaldi og rekstrarkostnaði á bifreið sinni (ef um virðisaukaskattsbifreið er að ræða). RR greiðir því tjónþola reikninginn án virðisaukaskatts.
b) Ef RR kaupir nýja rúðu og lætur setja hana í á verkstæði, fær RR virðisaukaskatt af viðhalds- og viðgerðarkostnaði, vegna bifreiðar annars aðila, ekki metinn til innskatts.

Í þeim tilfellum þegar tjónþoli er skráður aðili og tjónvaldur, þ.e. RR, lætur þriðja aðila gera við hið skemmda og greiðir um leið fullan virðisaukaskatt af viðgerðinni, getur tjónþoli talið áfallinn virðisaukaskatt til innskatts hjá sér að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
i) Tjónvaldur afhendi tjónþola frumrit kvittaðs reiknings fyrir viðgerðinni.
ii) Á reikningi viðgerðaraðila komi fram að viðgerðin sé vegna eignar tjónþola, þ.e. fram skal koma lýsing þeirrar eignar sem viðgerð varðar og hver sé eigandi.

Að lokum er rétt að taka fram að þegar skráður aðili verður fyrir tjóni, sem tryggingafélagi ber að bæta, og hann eða starfsmenn hans gera sjálfir við hinn skemmda mun, ber að útskatta þá vinnu sem innt er af hendi við viðgerðina. Tjónþolinn leggur því fram reikning til tryggingafélagsins og sá reikningur skal bera með sér virðisaukaskatt. Tryggingafélagið greiðir þó aðila upphæð reikningsins án virðisaukaskatts þar sem viðkomandi getur, að uppfylltum skilyrðum i) og ii) hér að ofan, talið virðisaukaskatt af viðgerðinni til innskatts.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Árni Harðarson.