Dagsetning                       Tilvísun
19. maí 1994                            631/94

 

Innskattur vegna virðisaukaskatts af gistingu

Vísað er til bréfs yðar dags. 16. mars s.l. þar sem spurt er, hvort umboðsaðili fyrir fiskafurðir megi telja til innskatts virðisaukaskatt af gistiþjónustu sem greidd er vegna:

a) eftirlitsmanna er þeir ferðast um landið til að hafa eftirlit með framleiðslunni,
b) sölumanna er þeir ferðast um til að kynna starfsemi fyrirtækisins,
c) stjórnarmanna er þeir sækja fundi utan heimabyggðar sinnar,
d) annarra starfsmanna er þeir þurfa að sækja fundi utan heimabyggðar sinnar?

Samkvæmt l. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, segir að til innskatts á hverju uppgjörstímabili skuli telja virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Í 3. mgr. sömu greinar er tæmandi upptalning á því, hvað ekki má telja til innskatts. Þar er gisting ekki nefnd.

Rekstraraðila er því heimilt að telja virðisaukaskatt af gistingu starfsmanna á ferðalagi til innskatts, ef ferðin er eingöngu farin vegna sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Athygli er vakin á því að aldrei má telja til innskatts virðisaukaskatt af fæðiskaupum sbr. 3. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.