LEIÐBEININGAR UM VIRÐISAUKASKATT AF ÚTGÁFUSTARFSEMI
1.0 Inngangur
Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skal hver sá sem selur vöru eða skattskylda þjónustu í atvinnuskyni tilkynna starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra. Skráningarskyldan nær jafnframt til félagasamtaka sem í hagnaðarskyni selja sambærilega vöru og þjónustu og atvinnufyrirtæki, sjá nánar í kafla 2.0.
Skráður eða skráningarskyldur aðili skal innheimta og skila virðisaukaskatti af þeirri sölu sem telst til skattskyldrar veltu. Sala bóka á íslensku, tímarita o.fl. telst ekki til skattskyldrar veltu, sbr. nánar í kafla 3.0. Skráður aðili hefur rétt til þess að fá endurgreiddan þann virðisaukaskatt (innskatt) sem fellur á kaup hans á aðföngum er varða hina skattskyldu sölu.
Þeir sem ekki eru skráningarskyldi innheimta hvorki virðisaukaskatt af sölu sinni né hafa rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum. Þeir eru utan virðisaukaskattskerfisins og bera sjálfir þann virðisaukaskatt sem þeir greiða vegna aðfanga sinna.
Um ýmis almenn atriði varðandi virðisaukaskatts vísast til ritsins Virðisaukaskattur – leiðbeiningar (RSK 11.15).
2.0 Hverjir eru skráningarskyldir?
2.1 ALMENNT
Útgáfa bóka, tímarita, dagblaða, landsmálablaða og annarra rita er skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnuskyni. Þó er starfsemin ekki skráningarskyld ef samanlagðar tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 172.300 kr. á ári (miðað við byggingarvísítölu l. janúar 1991).
2.2 HVENÆR ER ÚTGÁFA TALIN VERA Í ATVINNUSKYNI?
Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við það hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri eða ekki.
Útgáfa telst ekki vera í atvinnuskyni ef samanlagðar auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar, þ.m.t. prentkostnaður. Gefi aðili út fleiri en eitt rit er miðað við heildarafkomu fyrirtækisins.
Þótt útgáfufyrirtæki sé rekið tímabundið með tapi, t.d. fyrst eftir stofnun þess eða vegna sérstakra aðstæðna, hefur það ekki í för með sér undanþágu frá skráningarskyldu.
Starfsemi sem ekki uppfyllir skilyrðið um hagnað af rekstri er ekki skráningarskylt. Í því felst jafnframt að aðilar sem ekki verða taldir gefa út rit í atvinnuskyni eiga ekki rétt á skráningu. Til dæmis væri útgáfa manns á ættartölu sinni á bók til dreifingar án endurgjalds til ættingja ekki talin atvinnustarfsemi og því ekki skráningarskyld (ætti ekki rétt á skráningu).
2.3 ÚTGÁFUSTARFSEMI FÉLAGASAMTAKA
Útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem hagsmunasamtaka, íþróttafélaga, nemendafélaga og stjórnmálaflokka, má skipta í þrennt:
(a) Varanleg og regluleg útgáfa. Sé útgáfa blaðs eða tímarits varanleg og regluleg yfir lengra tímabil fer um skráningarskyldu eftir sömu sjónarmíðum og í 2.2. Útgefandi er skráningarskyldur ef hagnaður er af útgáfunni, þ.e. þegar tekjur af sölu og auglýsingum eru almennt hærri en kostnaður við útgáfu, enda nemi tekjur a.m.k. 172.304 kr. á ári (miðað víð byggingarvísitölu 1. janúar 1991).
Ef sölutekjur og tekjur af auglýsingum eru lægri en útgáfukostnaður, sem keyptur er með virðisaukaskatti, er útgáfan ekki skráningarskyld. Þó þarf að taka tillit til aðstæðna í einstökum tilvikum, einkum þegar ritum er dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds, en án sérstaks endurgjalds að öðru leyti. Skráningarskylda er þá talin vera fyrir hendi þegar ljóst er að um markaásvöru er að ræða. Útgáfustarfsemin er hins vegar undanþegin skráningarskyldu þegar tilgangur útgáfunnar er fyrst og fremst að fullnægja innri þörf félagsins (fréttir af félagsstarfi o.s.frv.).
Við mat þess hvort tiltekin útgáfa sé „markaðsvara“ má hafa þessi atriði til viðmiðunar:
* Hafa atvinnufyrirtæki sambærilega útgáfustarfsemi með höndum – bæði hvað varðar efni og framsetningu efnis?
* Eru aðrir en félagsmenn einnig áskrifendur að ritinu eða – ef félagið er opið almenningi – er líklegt að menn gangi í félagið gagngert í því skyni að fá áskrift að ritinu?
* Er útgáfustarfsemin umfangsmikill þáttur í heildarstarfsemi félagsins?
Ef svara má þessum spurningum játandi bendir það til þess að útgefandi sé skráningarskyldur þótt tekjur af útgáfunni séu lægri en gjöld.
(b) Útgáfa auglýsinga- og fjáröflunarblaða er skráningarskyld starfsemi. Hér er átt við blöð sem gefin eru út í fáröflunarskyni, hafa auglýsingar að meginefni og dreift er án endurgjalds út fyrir raðir félagsmanna.
(c) Tilfallandi útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem blaðaútgáfa stjórnmálaflokka fyrir kosningar, útgáfa afmælisrita eða skólablaða sem ekki falla undir a- eða b-líð telst ekki vera í atvinnuskyni í skilningi laga um virðisaukaskatt. Útgáfustarfsemi sem fellur í þennan flokk er því undanþegin skráningarskyldu – óháð afkomu.
2.4 ÚTGÁFUSTARFSEMI OPINBERRA AÐII.A
Opinberir aðilar, þ.e. ríki og sveitarfélög, og stofnanir og fyrirtæki þeirra, eru skráningarskyldir að því leyti sem þeir selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Ríkisskattstjóri lítur svo á að sala opinberra aðila á ritum sem þeir gefa út sé aðeins skráningarskyld ef þessar vörur eru seldar með hagnaði. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af þessari starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
3.0 Hvað telst til skattskyldrar veltu?
3.1 MEGINREGLAN UM SKATTSKYLDA VELTU
Skráður eða skráningarskyldur útgefandi tímarita eða bóka skal innheimta virðisaukaskatt (útskatt) af allri skattskyldri veltu sinni og skila honum í ríkissjóð. Ganga má út frá því að öll veita skráðs aðila sé skattskyld nema sérstakar undanþágur eigi við. Til skattskyldrar veltu teljast meðal annars allar auglýsingatekjur, hverju nafni sem nefnast, m.a. endurgjald fyrir svokallaðar styrktarlínur.
Láti útgefandi ekki í té neitt gagngjald fyrir móttekið framlag – þ.e. ef þess er hvorki getið í tímariti né komið á framfæri á annan hátt að viðkomandi aðili hafi styrkt útgáfuna
– á sér ekki stað skattskyld afhending á vöru eða þjónustu af hálfu útgefanda. Hið móttekna framlag fellur því utan skattskyldusviðs virðisaukaskattslaganna. Af hálfu gagnaðila er um að ræða gjöf sem aðeins er frádráttarbær frá tekjum af atvinnurekstri hans að því leyti sem segir í 3. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. reglugerð nr. 615/1987, um frádrátt vegna gjafa til menningarmála o.fl.
3.2 UNDANÞÁGUR FRÁ SKATTSKYLDRI VELTU
Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt eru nokkrar undanþágur frá meginreglunni um að öll sala teljist til skattskyldrar veltu. Útskattur leggst ekki á viðskipti sem undanþegin eru skattskyldri veltu. Segja mætti að á þá sölu reiknist „núllskattur“.
Tvö undanþáguákvæði laganna varða sölu á prentuðu efni:
* Sala tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða er undanþegin skattskyldri veltu (ákvæðið tekur einnig til afnotagjalda útvarpsstöðva).
* Sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra, er undanþegin skattskyldri veltu. Þetta ákvæði tók gildi l. september 1990.
Í kafla 4.0 hér á eftir er gerð nánari grein fyrir því hvaða rit falla undir þessi ákvæði.
Þessi undanþáguákvæði hafa þá þýðingu að skráðir útgefendur innheimta ekki virðisaukaskatt (útskatt) af sölu eða afhendingu rita sem falla undir ákvæðin. Þeir hafa samt sem áður rétt til endurgreiðslu innskatts af aðföngum er varða söluna.
Undanþáguákvæðin taka bæði til sölu í heildsölu og smásölu, þ.e. sölu frá útgefanda til smásala (bóksala) og frá smásala (bóksala) til endanlegs neytanda.
Undanþáguákvæðin taka ekki til sölu á prentþjónustu frá prentsmiðju. Virðisaukaskattur vegna prentunar á tímariti eða bók er hins vegar innskattur hjá skráðum útgefanda.
Um innskatt er nánar fjallað í kafla 5.0.
4.0 Til hvaða rita taka undanþáguákvæðin?
Greina verður á milli þrenns konar flokka rita, enda gilda mismunandi reglur um hvern flokk fyrir sig:
* Tímarit, dagblöð og landsmála- og héraðsfréttablöð.
* Bækur.
* Annar prentvarningur.
4.1 TÍMARIT, DAGBLÖD OG LANDSMÁLA- OG HÉRAÐSFRÉTTABLÖÐ
Sala tímarita er undanþegin skattskyldri veltu skráðs aðila. Engu breytir hvort tímarit er á íslensku eða erlendu máli.
Skilagreiningar
„Tímarit“ í skilningi ákvæðisins er hvers konar útgáfa rita, að jafnaði með efni eftir fleiri en einn höfund, önnur en útgáfa dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
{a) Kemur út reglulega og a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Ríkisskattstjóri getur þó í einstökum tilvikum samþykkt frávik frá þessu skilyrði.
(b) Útgáfan er liður í ótímabundinni röð, þ.e. gert er ráð fyrir útgáfu um ófyrirsjáanlega framtíð.
(c) Einstök hefti bera sama heiti og eru númeruð.
(d) Útgáfan er seld á fyrirfram ákveðnu verði eða dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds.
Með dagblöðum er átt við blöð sem koma út með reglubundnum hætti flesta daga vikunnar og hafa að geyma almennar fréttir af innlendum og erlendum vettvangi. Með landsmála- og héraðsfréttablöðum er átt við blöð sem að formi til eru svipuð dagblöðum og koma út a.m.k. einu sinni í mánuði.
Samstæður tímarita o.fl. – Ritaðir Fréttablöð, dagblöð og tímarit eru talin vera í bókarformi ef:
(a) Þau eru heft eða límd í annað en pappír.
(b) Um er að ræða samstæður tveggja eða fleiri eintaka tímarits, fréttablaðs eða dagblaðs sem bundin eru saman í eitt hefti.
Greint er á milli tímarita og ritraða. Ritröð er safn ritverka sem gefin eru út í mörgum bindum með sameiginlegum heildartitli, en hvert bindi er sjálfstæð heild. Dæmi um íslenskar ritraðir eru Safn til sögu Íslands, Safn Fræðafélagsins og Rit Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.
Erlend tímarit o.fl. í bókarformi og erlendar ritraðir bera virðisaukaskatt. Séu rit þessi á íslensku máli að öllu leyti eða að hluta fer um virðisaukaskatt eftir því sem segir í 4.2.
4.2 BÆKUR Á ÍSLENSKRI TUNGU
Sérstaða bóka gagnvart tímaritum og blöðum er sú að sala bókar er aðeins undanþegin skattskyldri veltu sé hún á íslenskri tungu. Af lögskýringargögnum má ráða að ástæða þess að löggjafinn takmarkar undanþáguna við bækur á íslensku sé viðleitni til þess að styrkja sérstaklega íslenska tungu og þann menningararf Íslendinga sem birtist á bók. Verður að hafa þann tilgang undanþáguákvæðisins í huga við skýringu þess.
Bækur með erlendum texta
Samkvæmt framansögðu tekur undanþágan ekki til bóka á öðrum tungumálum en íslensku, hvort sem höfundur og/eða útgefandi er íslenskur eða erlendur. Bækur sem eingöngu eru með erlendum texta bera 24,5% virðisaukaskatt við sölu í atvinnuskyni; það gildir einnig um erlendar bækur þar sem texti er minni hluti efnis (listaverkabækur, ljósmyndabækur o.fl.).
Ríkisskattstjóri lítur svo á að bók, sem bæði hefur að geyma erlendan og íslenskan texta (tví- eða fleirtyngd bók), falli ekki undir undanþáguna nema a.m.k. helmingur heildartexta hennar sé á íslensku. Þessi regla á þó ekki við ef íslenskur og erlendur texti er jafngildur í bók, þ.e. ef sami texti er á tveimur eða fleiri tungumálum, þ.m.t. íslensku. Þetta á t.d. við um ýmsar landkynningarbækur með sama texta á mörgum tungumálum. Hins vegar er ekki nægilegt að t.d. aðeins formáli slíkrar bókar sé á íslensku ef hún er að öðru leyti á erlendu máli.
Sérstaklega skal tekið fram að undanþáguákvæðið nær til kennslubóka í erlendum tungumálum, enda séu útskýringar og leiðbeiningar á íslensku. Einnig tekur ákvæðið til orðabóka, bæði íslensk-íslenskra og tvítyngdra orðabóka, þar sem íslenska er annað tungumálið.
Textalausar og textalitlar bækur
Skilyrðið um íslenskan texta leiðir til þess að undanþáguákvæðið tekur almennt ekki til bóka án texta í meginmáli þótt þær séu gefnar út af íslenskum útgefendum. Þó nær undanþágan til myndabóka með íslenskum texta, t.d. barnabóka eða listaverkabóka, þótt texti sé ekki stórvægilegur, og til nótnabóka, enda sé íslenskur texti með nótunum.
4.3 PRENTVARNINGUR SEM HVORKI ER TÍMARIT NÉ BÓK
Eftirtalinn prentvarningur er hvorki talinn vera tímarit né bók í skilningi undanþáguákvæða
laganna og skulu þeir sem í atvinnuskyni selja eða afhenda slíka vöru innheimta og skila
24,5% virðisaukaskatti af andvirði hennar:
(a) Rit til útfyllingar, innsetningar,1ímingar, heftunar eða til að rífa af eða úr. Má nefna sem dæmi eyðublöð,litabækur, stílabækur og reikningshefti.
- Smáprent, svo sem auglýsinga- og kynningarbæklingar, fréttabréf, dreifibréf og aðrir slíkir bæklingar.
(c) Leikskrár og sýningarskrár.
(d) Almanök, dagbækur og önnur regluleg útgáfa rita sem hafa að geyma dagatöl, nema þegar dagatal er minni hluti víðtækrar handbókar.
(e) Uppdrættir og kort, einnig í bókarformi. Þó tekur undanþágan til atlasa sem hafa að geyma tematískar upplýsingar auk korta.
(f) Rit, sem að meginefni eru skrár eða listar en ekki samfelldur texti, svo sem símaskrár, heimilisfangaskrár, fyrirtækjaskrár, vinningaskrár, verðskrár, leiðabækur um áætlunarferðir, skrár yfir sýningarhluti, fasteignir, rekstrarfjármuni, vörubirgðir og annað lausafé.
(g) Námsvísar og kennsluáætlanir skóla.
(h) Sérútgáfur laga og reglna, svo og staðlar, leiðbeiningar og tilkynningar frá opinberum aðilum. Undanþágan tekur þó til samstæðna tveggja eða fleiri slíkra rita sem bundin eru saman í eitt hefti.
4.4 UNDANÞEGIN BÓK EÐA TÍMARIT SEM SELT ER ÁSAMT ANNARRI VÖRU
Sú bók á íslensku eða tímarit selt með annarri vöru sem ein vöruheild ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarsöluverði eða heildarandvirði hins selda, einnig þótt undanþáguákvæðið gæti tekið til sölu prentgripsins ef hann væri seldur sérstaklega. Það er vöruheild ef kaupandi hefur ekki frjálst val um að kaupa einingarnar hvora í sínu lagi eða ef hann hefur ekki full not af einni einingu án annarrar. Sem dæmi má nefna:
* Leiðbeiningarrit með tæki.
* Blað, tímarit eða bók á íslensku er seld með hljómplötu, myndbandssnældu eða leikfangi.
5.0 Uppgjör á virðisaukaskatti
5.1 SKRÁNINGARSKYLDUR ÚTGEFANDI
Sé útgefandi skráningarskyldur samkvæmt þeim reglum sem gerð var grein fyrir í kafla 2.0 ber honum að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) af auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem teljast til skattskyldrar veltu, sbr. nánar kafla 3.0 og 4.0 að framan.
Skráður útgefandi getur talið virðisaukaskatt af aðföngum (innskatt) til frádráttar útskatti á virðisaukaskattsskýrslu samkvæmt almennum ákvæðum laga og reglugerða um virðisaukaskatt. Innskattsfrádráttur er heimill bæði vegna sölu sem telst til skattskyldrar veltu (sölu með 24,5% vsk.) og sölu sem undanþegin er skattskyldri veilu (sölu með „núllskatti“). Innskattsfrádráttur er hins vegar ekki heimill vegna starfsemi sem ekki er skráningarskyld. Sé innskattur hærri en útskattur endurgreiðir ríkissjóður mismuninn.
Sérstök athygli skal vakin á því að skv. 10. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt, mega opinberir aðilar, félagasamtök og aðrir aðilar, sem undanþegnir eru tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum þar um, ekki telja til innskatts annan virðisaukaskatt en þann sem eingöngu varðar hina skattskyldu sölu. Þessir aðilar mega því ekki telja virðisaukaskatt af sameiginlegum kostnaði (kostnaði sem bæði varðar skattskylda sölu og starfsemi sem ekki er skráningarskyld, t.d. almenna starfsemi félagasamtaka) að neinu leyti til innskatts, heldur aðeins virðisaukaskatt af prentkostnaði víðkomandi rits og öðrum beinum kostnaði við útgáfu og sölu þess.
5.2 ÚTGEFANDI SEM UNDANÞEGINN ER SKRÁNIGARSKYLDU
Sé útgefandi undanþeginn skráningarskyldu innheimtir hann hvorki virðisaukaskatt af auglýsingatekjum né sölutekjum af ritinu. Hann hefur hins vegar engan innskattsfrádrátt vegna útgáfunnar.
6.0 Tekjuskráning, bókhald og færsla á virðisaukaskattsskýrslu
6.1 ALMENNT
Allir skráðir aðilar skulu skrá sérhverja afhendingu á skattskyldri vöru og þjónustu jafnóðum og afhendingin fer fram. Jafnframt skulu þeir færa bókhald yfir kaup og sölu á vöru eða þjónustu til þess að geta gert upp þann virðisaukaskatt sem greiða á til ríkissjóðs eða sem þeir eiga rétt á að fá endurgreiddan. Bókhald vegna virðisaukaskatts fyrir hvert uppgjörstímabil skal færa áður en virðisaukaskattsskýrsla tímabilsins er send. Ítarlega er fjallað um tekjuskráningu og bókhald í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt (RSK 11.15) og vísast þangað um öll almenn atriði.
6.2 SÖNNUN ÞESS AÐ SALA SÉ UNDANÞEGIN SKATTSKYLDRI VELTU
Skráðir aðilar, sem selja undanþegnar bækur og tímarit fyrir eigin reikning eða annarra, skulu á fullnægjandi hátt sanna að hver einstök sala sé undanþegin skattskyldri veltu (beri núllskatt).
(a) Smásalar, sem selja dagblöð, bækur á íslensku og tímarit ásamt annarri vöru, skulu til sönnunar sölu með núllskatti skrá hverja einstaka sölu, jafnt staðgreiðslusölu sem lánssölu, í sérstaka sjóðvél eða í sjóðvél með tveimur aðskildum teljurum. Skal þá sala með núllskatti skráð í annan teljarann en sala með virðisaukaskatti í hinn.
Ef sala dagblaða, tímarita og bóka, sem undanþegin er skattskyldri veltu, er minni en 10% af heildarveltu án virðisaukaskatts, er smásala þá heimilt að gera hina undanþegnu veltu upp með óbeinni aðferð og færa hana til frádráttar skattskyldri veltu. Þegar þessi aðferð er notuð skal öll sala skráð í sama teljara sjóðvélar. Síðan skal útsöluverð seldra eintaka hvers dagblaðs, tímarits og bókar reiknað samkvæmt reikningum frá útgefendum eftir að sala hefur verið gerð upp við þá, þ.e. eftir að skiluð eintök hafa verið dregin frá mótteknum eintökum. Samtals uppgerð kaup á hverju tímabili skal færa á sérstakan gjaldareikning í bókhaldi og niðurstöðutala hans, að frádregnum áður nýttum frádrætti, skal síðan færð til frádráttar skattskyldri veltu í lok hvers uppgjörstímabils. Leiðréttingu af þessu tagi má færa daglega eða með öðrum reglulegum hætti vegna seldra dagblaða.
(b) Heildsalar skulu gefa út sölureikninga við hverja sölu. Þeir skulu færa sölu með núllskatti á sérstaka sölureikninga. Óheimilt er að færa á sama sölureikning sölu með virðisaukaskatti og sölu með núllskatti. Þegar um er að ræða sölu vöru með núllskatli er jafnframt óheimilt að gefa á einhvern hátt til kynna á sölureikningi að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð.
6.3 BÓKHALD OG FÆRSLA Á VIRÐISAUKASKATTSSKÝRSLU
Sala undanþeginna bóka, tímarita og dagblaða skal færð á sérstaka teknareikninga í bókhaldi. Jafnframt skal færa kaup þessara vara til endursölu á sérstaka gjaldareikninga í bókhaldi.
Við vörutalningu skal færa undanþegnar bækur, tímarit og blöð í sérstakar vörutalningarbækur.
Skráðum aðila er skylt að haga bókhaldi sínu og vörslu bókhaldsgagna þannig að hann geti að kröfu skattyfirvalda gefið upplýsingar um innkaup sín á skattskyldum vörum, þ.m.t. vörum sem bera núllskatt, frá einstökum skattskyldum aðilum. Jafnframt skal skráður aðili geta gefið skattyfirvöldum upplýsingar um sölu sína á skattskyldum vörum, þ.m.t. vörum með núllskatti, til einstakra skattskyldra aðila.
Sala sem undanþegin er skattskyldri veltu (sala með núllskatti) færist í reit B á virðisaukaskattsskýrslu. Á skýrsluna á ekki að færa tekjur vegna starfsemi sem virðisaukaskattslög taka ekki til.
Reykjavík, 11. júní 1991
Garðar Valdimarsson ,
ríkisskattstjóri.