Dagsetning Tilvísun
6. des. 1990 178/90
Leiðbeiningar um vsk. af góðgerðarstarfsemi.
Hjálagt fylgja leiðbeiningar til skýringa á ákvæðum reglugerðar nr. 564/1989 um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi. Hér er um að ræða bráðabirgðaútgáfu sem þó er ætluð til dreifingar til þeirra sem málið varðar.
Til viðbótar þeim atriðum sem fram koma í leiðbeiningunum sjálfum er rétt að taka fram eftirfarandi:
A. Atriði sem hafa þarf í huga við veitingu undanþága.
- Skilyrði fyrir undanþágu eru allþröng. Í ýmsum tilvikum er matskennt hvort tilvik geti fallið undir undanþáguheimildina; einkum á þetta við um þau atriði sem nefnd eru í lið 3.1.1 í leiðbeiningunum. Að áliti ríkisskattstjóra er rétt að hafa til viðmiðunar að verðmæti hvers einstaks söluhlutar sé eigi meira en 1.000 krónur.
- Í umsókn þarf að koma fram hvers konar starfsemi óskað er undanþágu fyrir og vegna hvaða verkefna, þar sem ótilgreind líknarstarfsemi fær ekki undanþágu.
- Undanþága skal eigi veitt til lengri tíma en tveggja ára í senn.
B. Atriði sem þurfa að koma fram í leyfisbréfi.
Svar skattstjóra skal vera skriflegt og hafa að geyma þau skilyrði sem sett eru vegna leyfisins. Atriði sem rétt er að fram komi geta verið eftirfarandi:
- Tilgreina þarf svo ótvírætt sé hvaða starfsemi undanþágan tekur til. Jafnframt að skilyrði fyrir undanþágu sé að öllum hagnaði skuli varið til þeirrar líknarstarfsemi sem umsókn varðaði.
- Að heimild til undanþágu frá virðisaukaskatti taki aðeins til útskatts á vöru þeirri sem seld er í góðgerðarstarfseminni, en hvorki til innskatts vegna aðfanga né til virðisaukaskatts sem til fellur vegna ráðstöfunar hagnaðarins.
- Að leyfið sé tímabundið. Þá skal tímamarka skilmerkilega getið.
- Að skilyrði leyfis sé að sá sem fái undanþágu vegna basarsölu o.þ.h. haldi bókhald vegna hvers einstaks viðfangsefnis sem sanni að hagnaði hafi að öllu leyti verið varið til líknarmála. Samsvarandi upplýsingar skulu liggja fyrir hjá þeim sem fá undanþágu vegna sölu notaðra muna.
- Að skattstjóri geti hvenær sem er óskað þess að fá rekstraryfirlit og bókhald leyfishafa til athugunar.
- Að sá er fær undanþágu frá virðisaukaskatti megi ekki tilgreina virðisaukaskatt á sölureikningum og öðrum söluskjölum sinum eða gefa á annan hátt til kynna að virðisaukaskattur sé innifalinn í söluverði.
- Við synjandi afgreiðslu skal gerð grein fyrir því að ákvörðun skattstjóra sé kæranleg til ríkisskattstjóra.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.