Dagsetning Tilvísun
22. september 1993 541/93
Leiðrétting á innskatti vegna frjálsrar skráningar
Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. júlí 1993, þar sem óskað er upplýsinga um hvort niðurfelling á frjálsri skráningu af virðisaukaskattsskrá geti leitt sjálfkrafa til leiðréttingar á áðurfengnum innskatti.
Í bréfi yðar kemur fram að um er að ræða aðila sem fékk heimild til frjálsrar skráningar vegna atvinnuhúsnæðis sem var og er leigt út. Eftir að frjálsa skráningin hafði verið í gildi í rúmlega tvö ár bar aðilinn fram beiðni til skattstjóra um niðurfellingu frjálsrar skráningar af virðisaukaskattsskrá.
Í 8. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign, segir að verði breyting á notkun eignar sem frjáls skráning tekur til þannig að skilyrði fyrir skráningunni eru ekki lengur fyrir hendi skuli leiðrétta innskattsfrádrátt í samræmi við ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Sé eign því áfram í útleigu en aðili, sem skráður hefur verið frjálsri skráningu, óskar afskráningar, felur það í sér að áframhaldandi leiga verður án virðisaukaskatts. Um leið og fasteignin er leigð út án virðisaukaskatts er um að ræða þannig breytingu á notkun hennar að skilyrði fyrir hinni frjálsu skráningu vegna hinnar leigðu eignar er ekki lengur fyrir hendi þar sem skilyrði fyrir frjálsri skráningu, vegna leigu á fasteign, er að innheimtur sé virðisaukaskattur af leigu eignarinnar. Afskráning felur því í sér þær notkunarbreytingar sem fram koma í 8. gr. reglugerðar nr. 577/1989.
Eins og fram kemur í bréfi yðar skal skattskyldur aðli, samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 81/1991, sbr. nú reglugerð 192/1993, um innskatt, leiðrétta innskatt vegna skattskyldrar starfsemi sinnar verði breyting á forsendum fyrir frádrætti innskatts. Í 13. gr. sömu reglugerðar er greint frá því hvað telst breyting á forsendum fyrir frádrætti. Í 13. gr. segir að það teljist breyting á forsendum fyrir frádrætti á innskatti þegar skattaðili naut fulls frádráttarréttar eða frádráttar að hluta þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið, en eignin er síðar seld, leigð eða tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber enginn eða minni frádráttaréttur. Hér á eins og áður það við að gjaldanda ber enginn frádráttarréttur eftir að vera tekinn af skrá og þar með hefur sú breyting á notkun eignarinnar, sem fram kemur í ákvæðinu, átt sér stað.
Það kemur fram í bréfi yðar að sérstaklega sé tekið fram í 3. tl. 13. gr. sömu reglugerðar að leiðréttingarskyldan falli niður þegar fasteign er leigð út og leigusali er skráður frjálsri skráningu, sbr. reglugerð nr. 577/1989. Þetta ákvæði á við gjaldanda á meðan hann er skráður frjálsri skráningu. Á meðan svo er, er ekki leiðréttingarskyldu á innskatti vegna hinnar leigðu fasteignar fyrir að fara.
Samkvæmt bréfi yðar er um að ræða aðila sem ekki er lengur skráður frjálsri skráningu. Því á 8. gr. reglugerðar nr. 577/1989 við og eins og áður kom fram felur hún í sér að leiðrétta skuli innskattsfrádrátt í samræmi við 2. mgr.16. gr. laga nr. 50/1988.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Árni Harðarson.