Dagsetning                       Tilvísun
11. maí 1992                            406/92

 

Leiðrétting innskatts vegna breytinga á notkun fasteignar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. mars 1992, þar sem óskað er upplýsinga um eftirtalin atriði:

A. Meðferð virðisaukaskatts sem fengist hefur endurgreiddur af byggingarkostnaði þegar húsnæðið er leigt aðila sem ekki hefur með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.

B. Meðferð virðisaukaskatts vegna sölu húsnæðis, sem nú er í byggingu, til hlutafélags sem tekur yfir skattskylda starfsemi fyrri eiganda.

Til svars fyrirspurninni bendir ríkisskattstjóri yður á ákvæði reglugerðar nr. 81/199l, um innskatt. Hafi skráður aðili fengið endurgreiddan virðisaukaskatt (innskatt) af byggingarkostnaði við fasteign, sem hann síðan selur, leigir eða tekur til annarrar notkunar sem ekki hefur í för með sér rétt til innskatts, skal hann bakfæra hinn fengna innskatt í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

Meginreglurnar um leiðréttingu innskatts eru reifaðar hér á eftir, þó aðeins að því leyti sem þær varða fasteignir. Til svars síðari lið fyrirspurnarinnar vísast sérstaklega til liðar nr. 5:

  1. Verði breyting á forsendum frádráttar innskatts skal leiðrétta fenginn innskatt af efni, vinnu, tækjanotkun o.fl. vegna nýbyggingar, endurbyggingar og endurbóta fasteigna, svo og vegna viðgerða og viðhalds þeirra, enda sé samtals verðmæti þessara framkvæmda a.m.k. 500.000 kr. (án virðisaukaskatts) eftir að það hefur verið framreiknað samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981.
  1. Það telst breyting á forsendum fyrir frádrætti á innskatti þegar skattaðili naut fulls frádráttarréttar eða frádráttar að hluta þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið, en eignin er síðar seld, leigð eða tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber enginn frádráttarréttur eða minni frádráttarréttur. Þó fellur leiðréttingarskylda niður í eftirfarandi tilvikum:

a. Þegar sala eða afhending rekstrarfjármuna telst til skattskyldrar veltu skattaðila, sbr. 3. mgr.11. gr.laga nr.50/1988 og 1l. gr. reglugerðar þessarar.

b. Þegar eign er seld á nauðungaruppboði.

c. Þegar fasteign er leigð út og leigusali er skráður frjálsri skráningu, sbr. reglugerð nr.577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.

  1. Leiðrétta skal innskatt vegna framkvæmda við fasteignir verði breyting á forsendum frádráttar á næstu tíu reikningsárum talið frá og með því ári þegar framkvæmd fór fram.
  1. Breytist notkun eignar á sama reikningsári og frádráttur innskatts fer fram nær leiðréttingarskylda til allrar þeirrar fjárhæðar sem dregin hefur verið frá sem innskattur. Breytist notkun síðar skal framreikna frádreginn innskatt samkvæmt verðbreytingarstuðli, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981. Þannig framreiknaðan innskatt skal leiðrétta (bakfæra) á eftirfarandi hátt: Á næsta ári eftir því ári þegar innskattsfrádráttur fór fram er leiðréttingarskyldan 90%, 80% á þarnæsta ári og lækkar síðan um 10 prósentustig árlega.
  1. Við kaup fasteignar getur kaupandi yfirtekið leiðréttingarskyldu vegna eftirstöðva tímabils skv. lið 3. að því leyti sem hann hefur frádráttarrétt vegna eignarinnar. Seljandi skal leiðrétta innskatt að því leyti sem frádráttarréttur kaupanda kann að vera minni en seljanda. Að öðru leyti fellur leiðréttingarskylda seljanda niður. Tilkynna skal skattstjóra um yfirtöku leiðréttingarskyldu samkvæmt þessari reglu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.