Dagsetning                       Tilvísun
12.09.2006                              13/06

 

Leiðrétting innskatts vegna breyttrar notkunar á fasteign við sölu.
Ríkisskattstjóri móttók þann 17. nóvember 2004 fyrirspurn frá skattstjóra Reykjanesumdæmis. Varðar fyrirspurnin meðferð leiðréttingar innskatts vegna breyttrar notkunar á fasteign við sölu hennar, þ.e. hvort leiðréttingarskyldan hvíli á seljanda eða kaupanda. Fyrirspurnin snýst fyrst og fremst um það hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt á söludegi eignarinnar til þess að leiðréttingarskylda flytjist yfir til kaupandans, þ.e. hvað seljandinn þurfi að hafa í höndunum á söludegi svo hann geti verið viss um að leiðréttingarskyldan hvíli ekki ennþá á honum.
Ákvæði 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, hljóðar svo:
„Við kaup fasteignar getur kaupandi yfirtekið leiðréttingarskyldu vegna eftirstöðva tímabils skv. 14. gr. að því leyti sem hann hefur frádráttarrétt vegna eignarinnar. Seljandi skal leiðrétta innskatt að því leyti sem frádráttarréttur kaupanda kann að vera minni en seljanda. Að öðru leyti fellur leiðréttingarskylda seljanda niður.“
Orðalag ákvæðisins felur í sér að frádráttarréttur kaupanda vegna eignarinnar verður að vera fyrir hendi við yfirtöku leiðréttingarskyldu. Leiðréttingarskylda seljanda fellur eingöngu niður að því marki sem nemur frádráttarrétti kaupanda. Er því að mati ríkisskattstjóra ljóst að leiðréttingarskylda seljanda fellur ekki niður við sölu á fasteign ef frádráttarréttur kaupanda vegna fasteignarinnar er ekki fyrir hendi á því tímamarki.

Seljandi skal tilkynna skattstjóra um yfirtöku kaupanda á leiðréttingarskyldunni og um ætluð not hans á fasteigninni með framlagningu yfirlýsingar um yfirtöku hans á kvöð um leiðréttingu innskatts, sbr. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, og 2. tl. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um sérstaka og frjálsa skráningu, þegar um sérstaka skráningu er að ræða. Þegar svo háttar að kaupandi fasteignar er með virðisaukaskattskyldan rekstur nægir slík yfirlýsing til að losa seljanda undan leiðréttingarskyldunni að því tilskyldu að skattstjóri fallist á að kaupandi sé bær til að taka yfir kvöðina. Ef kaupandi hefur blandaða starfsemi með höndum ber hann að tiltaka sérstaklega í hvaða rekstri til standi að nota fasteignina. Sama á við ef hann rekur starfsemi í fleiri en einni starfsgrein og hefur því fleiri en eina skráningu á grunnskrá virðisaukaskatts.

Ef kaupandi er ekki í virðisaukaskattskyldum rekstri, en fram kemur í yfirlýsingu hans að til standi að hefja slíkan rekstur og að fasteignin verði notuð í rekstrinum eða að hann hafi sótt um eða ætli að sækja um frjálsa skráningu vegna eignarinnar, nægir sú yfirlýsing ásamt tilkynningu til skattstjóra ekki til að leysa seljanda undan leiðréttingarkvöðinni. Þegar svo ber undir losnar seljandi ekki undan kvöðinni fyrr en kaupandi er, að mati skattstjóra, bær til að taka hana yfir og skattstjóri hafi fært kaupandann á grunnskrá virðisaukaskatts vegna þeirrar starfsemi sem hann hyggst nota eignina í.

 

Ríkisskattstjóri