Dagsetning Tilvísun
7. desember 1993 589/93
Lok virðisaukaskattsskyldrar starfsemi og frjáls skráning
Vísað er til bréfs yðar, dags.11. nóvember 1993, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna viðhalds A, sem framkvæmt er eftir að virðisaukaskattskyldri veitingasölu er hætt, en áður en útleiga á húsnæðinu hefst.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að þegar rekstraraðila er ljóst, t.d. vegna breyttra aðstæðna fyrirtækis, að velta verður um ófyrirsjáanlega framtíð undir lágmarki því sem um ræðir í 3. tl. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er um að ræða breytingu á starfsemi hans sem, skv. 2. ml. l. mgr. 5. gr., ber að tilkynna til skattstjóra, þ.e. aðila ber í þessu tilfelli að tilkynna sig út af skrá.
Samkvæmt því lauk virðisaukaskattskyldum rekstri þegar veitingasölu lauk og ljóst var að velta vegna veitingasölu yrði um ófyrirsjáanlega framtíð undir lágmarki. Eftir að virðisaukaskattskyldum rekstri lýkur fellur niður réttur sá sem stofnast við skráningu, um rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum, og ekki verður talið að aðili geti krafist endurgreiðslu vegna virðisaukaskatts sem fellur á kaup á aðföngum eftir að virðisaukaskattskyldum rekstri lýkur.
Hins vegar er rétt að benda á að þótt fasteignaleiga sé undanþegin virðisaukaskattsskyldu, sbr. 8. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga, þá getur sá, sem í atvinnuskyni leigir fasteign eða hluta fasteignar, sótt um frjálsa skráningu til skattstjóra, sbr. 6. gr. virðisaukaskattslaga og reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign með breytingu skv. reglugerð nr. 180/1993. Frjáls skráning leiðir til þess að leigusali skal innheimta og skila virðisaukaskatti af þeim leigugreiðslum sem skráningin tekur til eftir almennum reglum virðisaukaskattslaga, en hefur rétt til að telja virðisaukaskatt af kostnaði vegna eignarinnar til innskatts. Sé leiga undanþegin virðisaukaskatti hefur leigusali ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðföngum sínum, sbr. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.
Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign með breytingu skv. reglugerð nr. 180/1993, getur leigusali aðeins talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur eftir skráninguna á kaup hans á vörum og þjónustu vegna nýbyggingar, endurbóta og viðhalds þeirrar fasteignar sem frjáls skráning tekur til, svo og vegna reksturs- og stjórnunarkostnaðar sem varðar eignina.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Árni Harðarson