Dagsetning Tilvísun
3. febrúar 1995 661/95
Með vísan til bréfs yðar dags. 28. október 1994 sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á formi reiknings X sem ritaður er á bréfsefni bankans, vegna notkunar á skjálínu. Ennfremur er farið fram á að upplýsingum varðandi virðisaukaskatt af lántökugjaldi og ítrekunargjaldi verði komið á framfæri við fyrirtæki.
Í bréfi yðar segir:
„1. Reikningur ef svo má kalla er ritaður á bréfsefni X en ekki á tví-eða þríritapappír.
2. Kennitala og reikningsnúmer eru auðsjáanlega ekki forprentuð.
3. Vantar kennitölu kaupanda.
Almenn bankastarfsemi er undanþegin vsk.. Reikningurinn (bréfsefnið) er fyrir afnot af bankalínu. Er ekki verið að borga fyrir afnot af hugbúnaði (bankalínu)? Vantar ekki vsk..
Í I.K. þjónustu banka er boðið upp á að rukka inn ítrekunargjald fyrir fyrirtæki. Öll almenn fyrirtæki þurfa að reikna virðisaukaskatt á ítrekunargjöld. En ef bankinn framkvæmir slíkan útreikning er ekki borgaður virðisaukaskattur.
Í skjálínu er boðið upp á útreikning fyrir skuldabréf. Þar er ekki boðið upp á að reikna vsk. á lántökugjald. Mjög mörg fyrirtæki reikna ekki vsk. á lántökugjöld, þyrfti ekki að upplýsa fyrirtæki um að vsk. eigi að reikna á lántökugjöld og ítrekunargjöld.“
Samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun undanþegin virðisaukaskatti. Undir undanþáguákvæðið fellur eiginleg banka- og lánastarfsemi.
Telja verður að sú þjónusta sem banki veitir með aðgangi að skjálínu sé þess eðlis að hún falli undir undanþáguákvæði laganna. Við lestur samnings um aðgang að fyrirtækjaþjónustu banka og R, verður ekki annað séð, en að þar séu samningsaðilar að semja um eiginlega bankaþjónustu, sem fram fer í gegnum gagnaflutningsnet Pósts og síma, í stað afgreiðslu sem fram fer hjá gjaldkera banka.
Hvað varðar form reiknings skal tekið fram, að ákvæði reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, eru gerðar mun strangari kröfur, hvað varðar form reikninga, en gerðar eru til aðila er undanþegnir eru virðisaukaskatti og verður því að telja reikning þann sem hér er til umfjöllunar gildan.
Varðandi fyrirspurn yðar um virðisaukaskatt af ítrekunargjaldi skal eftirfarandi tekið fram:
Þjónusta bankans við útreikninga á ítrekunargjaldi vegna innheimtu á útistandandi skuldum (skuldabréf, víxlar o. fl.) viðkomandi fyrirtækis, sem er til innheimtu hjá banka flokkast undir almenna bankaþjónustu og því undanþegin virðisaukaskatti. Sé þjónustan vegna skulda sem ekki eru í innheimtu hjá banka, heldur hjá viðkomandi fyrirtæki sjálfu, þá er ekki um að ræða eiginlega bankaþjónustu vegna lánastarfsemi /innheimtuþjónustu bankans og ber að innheimta virðisaukaskatt af slíkri þjónustu. Jafnframt er innheimtuþjónusta banka vegna vanskilaskulda (innheimtukostnaður) virðisaukaskattsskyld.
Samkvæmt ofanrituðu verður innheimta banka á ítrekunargjaldi að teljast falla undir undanþáguákvæði 2. gr. virðisaukaskattslaga og ber því banka ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu. Verður ekki annað séð en að þessi þjónusta, sem fyrirtæki kaupir af bankanum í formi afnota af skjálínu sé einskonar framlenging á eiginlegri bankaþjónustu, eini munurinn er, að hún fer ekki fram í gegnum gjaldkera í bankanum sjálfum, heldur gegnum svokallaða þjónustulind, sem er tölvutenging fyrirtækja við banka. Notandinn er beinlínutengdur við R, rétt eins og um bankagjaldkera væri að ræða, þar sem boðið er upp á alla algengustu þjónustu banka.
Af þjónusta skjálínu á útreikningi lántökugjalds fyrir skuldabréf sem flokkast undir eiginlega bankaþjónustu, reiknast ekki virðisaukaskattur.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir