Dagsetning Tilvísun
10. janúar 1996 711/96
Meðferð innskatts við innflutning
Vísað er til bréfs yðar dags. 6. október 1995, þar sem óskað er umsagnar embættisins um meðferð innskatts í þeim tilvikum þegar A hf. leysir út vörur viðskiptaðila til greiðslu á viðskiptaskuld.
Í bréfi yðar segir:
“Fyrir kemur að skuld vegna leigugjalds fyrir vöru fæst ekki greidd og innheimtuaðgerðir af hálfu fyrirtækisins reynast árangurslausar. Í slíkum tilvikum er erlendum söluaðila vörunnar gefinn kostur á því að taka vöruna til baka gegn því að greiða áfallna leigu og kostnað vegna vörunnar eða vísa til nýs innflutningsaðila sem yfirtekur vöruna og greiðir áfallinn kostnað vegna hennar. Ef erlendi aðilinn lýsir því yfir að hann muni ekki taka vöruna til baka né geti vísað til annars innflutningsaðila sem yfirtekur vöruna er varan boðin upp af tollyfirvöldum til greiðslu á aðflutningsgjöldum og áföllnum kostnaði. Í þeim tilvikum tapar umbjóðandi okkar oftar en ekki verulegum fjárhæðum. Í þeim tilgangi að tryggja betur hagsmuni sína í þessu sambandi hyggst umbjóðandi okkar í auknum mæli leysa til sín vöru sem þannig er ástatt um eins og áður var lýst, til þess að koma í veg fyrir að varan verði boðin upp og lítið sem ekkert fáist til greiðslu upp í leiguskuld. ……Fyrirspurn okkar lýtur að því hvort umbjóðanda okkar sé heimilt að telja til innskatts greiddan virðisaukaskatt í tolli þó fylgiskjöl vegna greiðslunnar sé í nafni annars aðila. ”
Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988. um virðisaukaskatt, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, skal greiðsluskjal frá tollyfirvöldum liggja til grundvallar innskatti vegna eigin innflutnings skattaðila. Í þessu sambandi skiptir ekki máli þótt varan skipti um eigendur eftir að hún kemur til landsins, enda séu gögn í bókhaldi aðila sem sanna eignarhald hans.
Samkvæmt framansögðu á sá sem leysir út vöruna, í þessu tilviki A hf., og fær greiðsluskjal á sitt nafn frá tollyfirvöldum fyrir virðisaukaskattinum rétt á að telja þann virðisaukaskatt til innskatts.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir