Dagsetning                       Tilvísun
2. mars 1994                            623/94

 

Meðferð virðisaukaskatts í verktakastarfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. febrúar 1994, þar sem óskað er eftir svari ríkisskattstjóra á nokkrum spurningum varðandi meðferð virðisaukaskatts í verktakastarfsemi.

Í bréfi yðar eru lagðar fram eftirfarandi spurningar:

1. Hvaða kröfur eru gerðar til einstaklinga sem sækja um skráningu sem sjálfstætt starfandi einstaklingar og óska eftir virðisaukaskattsnúmeri?

Svar:   Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt ber þeim, sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti í ríkissjóð. Skilyrði ákvæðisins um sjálfstæða starfsemi í atvinnuskyni er kölluð „atvinnuskynsreglan“.

Rekstraraðili, sem stundar með sjálfstæðri starfsemi sinni sölu á vörum eða þjónustu í hagnaðarskyni, þar sem tekjur fyrir starfsemina eru alltaf eða nær alltaf hærri en kostnaður við aðföng að uppfylltum kröfum virðisauka-skattslaga um lágmarksfjárhæð, hefur með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi.

2. Telja skattyfirvöld að þeir sem eru skráðir sem virðisaukaskattsskyldir aðilar eigi að skila inn rekstrarreikningi með skattframtali sínu?

Svar:   Í 1. mgr. 91. gr. i.f. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, kemur fram að skýrslu þeirra sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skuli jafnframt fylgja rekstrar- og efnahagsreikningur.

3. Er það túlkun skattyfirvalda að skráður aðili sé innheimtu- og umsjónarmaður þeirra fjármuna ríkissjóðs, sem safnast upp í formi virðisaukaskatts á hverju tímabili og beri ábyrgð á skilum þess fjár til ríkissjóðs?

Svar:   Með vísan til grundvallarreglna virðisaukaskattslaga er spurningu þessari svarað játandi. Í II. kafla laganna eru þeir tilteknir sem eiga að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, en í IX kafla laganna er fjallað um uppgjörstímabil, gjalddaga, álag, kærur o.fl., þannig að skili skattskyldur aðili ekki innheimtum virðisaukaskatti á réttum tíma, þá getur það varðað hann álagsgreiðslum og, eftir atvikum ef brot er alvarlegt, sektum og fangelsi, sbr. ákvæði 40. gr. laganna.

4. Með vísan til spurningar nr. 3 og til lögræðislaga nr. 68/1984, er spurt hvort einstaklingur yngri en 18 ára geti verið skráður sjálfstætt starfandi einstaklingur, án samþykkis forráðamanns/fjárhaldsmanns?

Svar:   Samkvæmt 20. gr. lögræðislaga ræður fjárráða maður einn fé sínu, og eftir 32. gr. ræður lögráðamaður ófjárráða manns fyrir fé hans. Í báðum greinunum er þó gert ráð fyrir undantekningum frá þessari reglu. Fjárræðisskortur lýsir sér þá í því, að ófjárráða maður ræður ekki fé sínu, nema undantekning sé gerð frá því í lögum.

Af ákvæðum 20. og 22. gr. lögræðislaga er ljóst, að fjárræði er skilyrði fyrir því, að maður geti, svo að gilt sé, tekist á hendur almennar fjárskuld-bindingar með löggerningi. Ófjárráða einstaklingur getur því eigi verið skráður virðisaukaskattsskyldur án samþykkis lögráðamanns og breyta undantekningarreglur 21. gr. lögræðislaga, um sjálfsaflafé, engu þar um.

5. Eru til frávik frá þeirri reglu að sjálfstætt starfandi aðilar skuli hafa fyrirfram númeraða reikninga í óslitinni númeraröð?

Svar:   Samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 20. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskatts-skyldra aðila, eiga reikningseyðublöð að vera fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð og bera nafn, kennitölu og skráningarnúmer seljanda. Upplýsingar þessar skulu vera áprentaðar á allt upplag reikningseyðublaða áður en þau eru tekin í notkun. Frá þessum reglum eru engar undantekningar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir