Dagsetning                       Tilvísun
21. febrúar 1994                            619/94

 

Meðferð virðisaukaskatts vegna vinnu manna við forsteypt fjölbýlishús

Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. október 1991, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra um meðferð virðisaukaskatts vegna vinnu manna við forsteypt fjölbýlishús.

Í bréfi yðar kemur fram að fyrirtæki yðar hafi byggt fjölbýlishús úr forsteyptum einingum, og þar sem vinna og aðgerðir á sjálfum byggingarstaðnum séu miklar og tímafrekar miðað við heildarverk þá teljið þér ekki rétt að flokka framleiðsluna undir verksmiðjuframleidd einingahús í skilningi reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Þá kemur fram að ekki hafi verið sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vafa um meðferðina, og því hafi allur innskattur af aðföngum og vinnu safnast upp.

Um byggingaraðferð hússins segir að framleiddar séu forsteyptar einingar úr steinsteypu og þær fullunnar í einingaverksmiðju fyrirtækisins. Að fenginni nauðsynlegri hörðnun og snyrtingu eru einingarnar fluttar á byggingarstað, þar sem þær eru reistar með byggingarkrana. Veggeiningar eru stífðar fastar með þar til gerðum stífum og rafsoðnar við ísteyptar festingar. Þá er gengið frá járnabendingu og einan-grun í samsetningar milli veggeininga, samsetningum lokað og steypt í með sérlagaðri steypu. Eftir að nauðsynlegri hörðnun samsteypunnar er náð er gert við og múrað yfir samskeytin að innanverðu, en fúgu að utan er lokað með þéttilista. Á þessu byggingarstigi eru einingarnar (húsið) tilbúnar undir endanlega áferð, sílanhúðun eða málningu utanhúss og sandspörtlun eða málningu innanhúss. Íbúðir í húsinu eru seldar á fasteignamarkaði og ekki gefnir út sérstakir reikningar, heldur gengið frá kaup-samningum og gefnar út kvittanir þegar greiðslur berast, þ.e. salan á sér ekki stað með virðisaukaskatti frekar en í öðrum fasteignaviðskiptum.

Einnig eru í bréfi yðar ítarlegar upplýsingar um framleiðsluferil í einingarverksmiðju, vinnuferil á byggingarstað og meðferð bókhalds.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að um starfsemi yðar fer eftir reglum um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi á eigin kostnað, en þær reglur taka m.a. til byggingar mannvirkis á eigin lóð eða leigulóð, sbr. reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi.

Hver sá sem byggir á eigin kostnað fasteign á eigin lóð eða leigulóð til leigu eða sölu skal greiða virðisaukaskatt af þessum framkvæmdum ef hann eða starfsmenn hans vinna við hönnun eða byggingu. Reikna skal útskatt af þeim verkliðum sem taldir eru upp í 2. gr. reglugerðarinnar. Heimilt er við uppgjör á virðisaukaskatti að telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem greiddur er af efni sem hann og starfsmenn hans nota, svo og orku, leigu og rekstri tækja án stjórnanda og innkaupsverði og rekstri eigin tækja, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Til innskatts telst hvorki sá virðisaukaskattur sem aðili greiðir við kaup á þjónustu verktaka við byggingarframkvæmdir né virðisaukaskattur af efni sem ekki sætir neins konar aðvinnslu af hálfu byggingaraðila sjálfs eða starfsmanna hans. Sama gildir um aðrar vörur og skattskylda þjónustu sem aðili kaupir vegna starfsemi sinnar.

Um skattverð og meðferð bókhalds vísast til 6. og 7. gr. reglugerðarinnar og almennra reglna laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Að lokum skal tekið fram að hluti af söluverði verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa er endurgreiddur, sbr. III. kafla reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðis-aukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði. Við útreikning þess hlutfalls sem gefið er upp í 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar er ekki reiknað með kostnaði við grunn, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Ríkisskattstjóri lítur svo á að framleiðandi einingahúss, sem reisir það á eigin grunni, eigi jafnframt rétt til endurgreiðslu eftir ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt framansögðu skal endurgreiðsla til framleiðanda einingahúss, sem er jafnframt lóðarhafi, vera með eftirfarandi hætti:

  1. Endurgreiða skal gjaldanda skv. 10. gr. framangreindrar reglugerðar. Endur-greiðslan miðast við söluverð hússins að frádregnum grunni og lóð skv. almennu gangverði.
  2. Endurgreiða skal gjaldanda vegna vinnu manna við grunn, sbr. 9. gr. sömu reglugerðar.

Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir