Dagsetning                       Tilvísun
30. mars 1993                            465/93

 

Myndstef – Birtingaréttur

Vísað er til samtals við yður og bréfs yðar dags. 8. febrúar sl. þar sem óskað var álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af höfundarréttar- og fylgiréttargjöldum.

Spurt var hvort innheimta skuli virðisaukskatt af:

a) Höfundarréttargjöldum (vegna birtingar).
b) Fylgiréttargjöldum (vegna sölu).

Höfundarréttargjöld skv. lögum nr. 73/1972, sbr. lög nr. 57/1992.

M innheimtir gjöld fyrir birtingu myndverka sem búið er að birta áður. Hér er um að ræða birtingu á málverkum, teikningum, ljósmyndum ofl.

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. meginreglu 2. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988, nær skattskyldan til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist nema hún sé sérstaklega undanþegin virðisaukaskatti sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna.

Samkvæmt framansögðu er meginreglan sú að sala eða afhending á réttindum (óefnislegum verðmætum) er skattskyld. Hins vegar er framsal á birtingarétti þeirra listaverka sem eru undanþegin skattskyldu sbr. 2. tölul. 4. gr. (málverk, teikningar höggmyndir o.fl.) undanþegið virðisaukaskatti skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna. Skilyrði er að gjaldið renni til höfundar.

Það fer svo eftir því til hverra nota myndverkið er hvort gjaldið myndar stofn til álagningar virðisaukaskatts af sölu. Ef myndverk er t.d. notað til birtingar í auglýsingu þá telst gjaldið til skattverðs hinnar seldu auglýsingar, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga.

Fylgiréttargjöld skv. 25. gr. b. laga nr. 73/1972, sbr. 10. gr. laga nr. 57/1992.

Samkvæmt 25. gr. b. höfundalaga skal við endursölu á listaverkum í atvinnuskyni leggja 10% gjald á söluverð verkanna er renni til höfundar listaverks.

Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum segir að til skattverðs teljist gjöld sem virðisaukaskattsskyldur aðili skal standa skil á vegna sölu. Af framansögðu má vera ljóst að innheimta ber virðisaukaskatt af framangreindu gjaldi ef um er að ræða virðisaukaskattsskylda sölu. Aftur á móti ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af fylgiréttargjaldi ef sala á listaverki er undanþegin virðisaukaskatti.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir.