Dagsetning                       Tilvísun
24. apríl 1996                            734/96

 

Notkun farsíma – virðisaukaskattur

Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. mars 1996, þar sem spurst er fyrir um virðisaukaskatt af farsímanotkun.

Í bréfi yðar kemur fram að þegar erlendir aðilar nota farsíma hér á landi, er erlendur rekstraraðili (operator) ábyrgur fyrir greiðslum til Pósts og síma sem gerir honum reikning með virðisaukaskatti. Síðan innheimtir erlendi rekstraraðilinn hjá sínum viðskiptavinum fyrir notkunina. Samkvæmt upplýsingum Pósts og síma þá er það mismunandi hvernig þessu er háttað í öðrum löndum. Að fenginni heimild skattyfirvalda í viðkomandi löndum fella sumir rekstraraðilar niður virðisauka-skattinn þegar erlent farsímakort hefur verið notað.

Í bréfi yðar eru þrjár spurningar:

  • Er Pósti og síma heimilt að fella niður virðisaukaskatt af reikningi til erlendra rekstraraðila vegna notkunar viðskiptavina þeirra í farsímakerfi Pósts og síma?
  • Ef ekki er þá mögulegt fyrir erlenda rekstraraðilann að fá skattinn endurgreiddan og hvernig ber að standa að því?
  • Ber Pósti og síma að leggja íslenskan virðisaukaskatt á farsímanotkun íslenskra aðila erlendis en svo hefur ekki verið gert fram að þessu?

Pósti og síma ber að innheimta öll gjöld fyrir símanotkun hér á landi með virðisaukaskatti. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja geta erlend fyrirtæki (þ.e. aðilar sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi) fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem þau hafa greitt hér á landi vegna kaupa á vörum og þjónustu til atvinnustarfsemi sinnar. Skilyrðin fyrir endurgreiðslunni eru:

  1. Að virðisaukaskattur sem umsókn tekur til varði atvinnustarfsemi sem aðili rekur erlendis.
  2. Að starfsemi hins erlenda fyrirtækis væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt ef hún væri rekin hér á landi.
  3. Að um sé að ræða virðisaukaskatt sem skráður aðili hér á landi gæti talið til innskatts eftir ákvæðum 15. og 16. gr. virðisaukaskattslaga.

Sækja skal um endurgreiðsluna á eyðublaði RSK 10.29. Hinum erlenda aðila er heimilt að fela umboðsmanni sínum hér á landi að sækja um og taka við endurgreiðslu, enda leggi hann fram skriflegt umboð þar um. Það er gert með eyðublaði RSK 10.36, bæði eyðublöðin fylgja bréfi þessu svo og reglugerð nr. 288/1995.

Pósti og síma ber ekki að leggja íslenskan virðisaukaskatt á farsímanotkun íslenskra aðila erlendis þar sem sú þjónusta telst ekki nýtt hér á landi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón H. Steingrímsson

 

Hjálagt: Reglugerð nr. 288/1995 og eyðublöð RSK 10.29 og RSK 10.36