Dagsetning                       Tilvísun
25. ágúst 1997                             821/97

 

Nytjaskógrækt – skráning og trygging

Vísað er til dreifibréfa, dags 31. júlí sl. (Til. 14) og 1. ágúst (816/97) og orðsendingar nr. 4 um virðisaukaskatt. Í tilvitnuðum bréfum og orðsendingu kemur fram að til að geta fengið nýskráningu eða áframhaldandi skráningu í nytjaskógrækt verður aðili að framvísa sem tryggingu þinglýstum samningi við opinbera skógræktarstofnun.

Komið hefur í ljós að ekki hafa allir gerðir samningar hlotið staðfestingu landbúnaðarráðuneytis sem er nauðsynlegur undanfari þinglýsingar. Af því tilefni skal upplýst að landbúnaðarráðuneyti stefnir að því að staðfesta alla þegar gerða skógræktarsamninga í tíma, þ.a. unnt verði að þinglýsa þeim fyrir 1. september nk.

Einnig hefur komið á daginn að nokkur tími líður frá því að aðili fær samþykki til nytjaskógræktar þar til fullgerður, undirritaður og staðfestur samningur getur legið fyrir. Af þeirri ástæðu hefur embætti ríkisskattstjóra útbúið eyðublað fyrir kvöð á viðkomandi land sem skal tekið gilt sem fullnægjandi trygging til grundvallar skráningu í nytjaskógrækt þegar það hefur verið undirritað og þinglýst. Umrætt eyðublað fylgir hér hjálagt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón H. Steingrímsson.