Dagsetning                       Tilvísun
17. jan. 1991                             213/91

 

Reglur um tekjuskráningu og reikningaútgáfu.

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri ítreka þær reglur sem gilda um tekjuskráningu og reikningaútgáfu bensínstöðva. Þess er óskað að olíufélögin kynni þessar reglur fyrir starfsmönnum á útsölustöðum félagsins um land allt.

Sjóðvélaskylda

Bensínafgreiðslur eru skyldar til að skrá alla sölu sína í sjóðvélar, sbr. reglugerð nr. 501/1989 með breytingum skv. reglugerð nr. 156/1990. Nánari ákvæði um gerð og búnað sjóðvéla er að finna í reglugerð nr. 531/1989 um sjóðvélar.

Búnaður sjóðvéla

Sjóðvélar skulu að lágmarki hafa eftirfarandi búnað:

*     Ytri strimil, þ.e. kassakvittun. Strimillinn skal sýna sundurgreiningu viðskiptanna og verð hverrar vöru ásamt dagsetningu.

*     Innri strimli sem á lesanlegan hátt sýni hverja innstimplun.

*     Dagsöluteljara er sýni sölu hvers dags og hve oft teljarinn hefur verið endurstilltur.

*     Uppsöfnunarteljara sem sýni þá fjárhæð sem skráð hefur verið í vélina frá upphafi.

Sjóðvél skal koma þannig fyrir að viðskiptamaður geti óhindrað fylgst með skráningu í sjóðvél og gengið úr skugga um að viðskiptin séu rétt skráð.

Óheimil er notkun sjóðvéla sem hægt er að nota sjálfstætt sem reiknivélar án þess að skráning eigi sér stað.

Notkun sjóðvéla

Sjóðvélaskyldir aðilar skulu skrá alla sölu sína í sjóðvél, jafnt staðgreiðslusölu sem lánssölu. Gera skal sjóðvél upp daglega. Til sönnunar færslu á sölu dagsins skal nota dagsetta útsláttarstrimla úr sjóðvél. Strimlar þessir skulu áritaðir af ábyrgum starfsmanni og varðveittir sem önnur bókhaldsgögn.

Sala til virðisaukaskattsskyldra aðila

Við sölu til virðisaukaskattsskyldra aðila skal jafnframt skráningu í sjóðvél gefa út reikning sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:

*     Reikningseyðublaðið sé með áprentuðum upplýsingum um nafn, kennitölu og vsk-númer seljanda.

*     Reikningar skulu vera a.m.k. í tvíriti.

*     Ef fjárhæð reiknings er hærri en 5.170 kr. (miðað við vísitölu 1. jan. 1991) skal skrá nafn og kennitölu kaupanda. Að öðrum kosti þarf þess ekki.

*     Fram skal koma tegund sölu, þ.e. lýsing á hinu selda, magn, einingarverð og heildarverð.

*     Fjárhæð virðisaukaskatts skal koma sérstaklega fram.

Við frumrit þessa reiknings skal seljandi (bensínstöð) hefta kassakvittun sjóðvélar til sönnunar því að salan hafi verið skráð í sjóðvél. Bensínstöð varðveitir síðan afrit reiknings í dagsetningarröð í þeim tilgangi að hægt sé síðar að ganga úr skugga um að tiltekin viðskipti hafi átt sér stað.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að tegund sölu, þ.e. lýsing á hinu selda, skal ætíð koma fram á reikningi. Ekki nægir að skrifa vörur eða annað ámóta. Reikningar með slíkum texta eru ekki samþykktir sem innskattshæfir hjá kaupanda.

Ennfremur er rétt að vekja athygli afgreiðslumanna á því að vísvitandi röng skráning vöruheitis á reikning getur talist hlutdeild í skattsvikum. Slík brot eru refsiverð eftir reglum III. kafla almennra hegningarlaga.

Sala til annarra

Þegar vörur eru seldar til annara en virðisaukaskattsskyldra aðila nægir að stimpla þá sölu í sjóðvél og afhenda viðskiptavini strimilinn. Óski viðskiptavinur eftir reikningi nægir að skrifa reikning/kvittun í einriti.

Frumtekjuskráningargögn bensínstöðva

Samkvæmt þeim reglum sem að framan hafa verið raktar þarf bensínstöð að vera með eftirfarandi búnað og gögn til þess að uppfylla ákvæði laga:

*     Sjóðvél með fullnægjandi útbúnað. Í hana skal skrá öll viðskipti jafnskjótt og þau fara fram, hvort sem um er að ræða sölu gegn staðgreiðslu eða lánsviðskipti, bæði til virðisaukaskattsskyldra aðila og annarra.

*     Reikninga í tvíriti sem uppfylla framangreind skilyrði. Þeir skulu notaðir jafnhliða sjóðvél vegna viðskipta við virðisaukaskattsskylda aðila. Hefta skal kassakvittun við frumrit reiknings og varðveita afrit í dagsetningarröð.

*     Reikninga/kvittanir í einriti til notkunar jafnhliða skráningu í sjóðvél vegna viðskiptamanna sem óska eftir veigameiri kvittun en kassakvittun.

Frekari upplýsingar

Allar frekari upplýsingar og skýringar eru veittar hjá ríkisskattstjóra í síma 631100.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.