Dagsetning Tilvísun
4. maí 1995 681/95
Reikningsmeðferð bifreiðagjalda
Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. janúar 1994, þar sem þér óskið álits ríkisskattstjóra á hver reikningsleg meðferð bifreiðagjalda eigi að vera, þ.e. hvort bifreiðagjöld eigi að vera utan skattverðs á reikningi til neytanda frá bifreiðaumboði.
Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vskl.) með áorðnum breytingum, teljast til skattverðs „skattar og gjöld samkvæmt öðrum lögum sem á hafa verið lögð á fyrri viðskiptastigum eða greidd hafa verið við innflutning til landsins eða virðisaukaskattsskyldur aðili á að standa skil á vegna sölu“. Með vísan til þessa ákvæðis ætti allur sá kostnaður sem bifreiðaumboð leggur út fyrir kaupanda að bera virðisaukaskatt væri hann að finna á reikningi bifreiðaumboðs til kaupanda. Hins vegar getur bifreiðaumboðið haldið slíkum kostnaði utan við skattverðið með því að nýta sér reglurnar um útlagðan kostnað. Um útlagðan kostnað eru ákvæði í 21. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Þar segir í 1. mgr. að útlagður kostnaður sé ekki hluti skattverðs seljanda ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
- Seljandi endurkrefji kaupanda um kostnaðinn án nokkurs álags eða þóknunar.
- Sölureikningur vegna kostnaðarins sé skráður á nafn kaupanda.
- Kaupandi fái frumrit reiknings í hendur ásamt uppgjöri.
Virðisaukaskattur vegna þessa kostnaðar telst ekki til innskatts seljanda. Hins vegar getur kaupandi, ef hann er skráður aðili, talið skattinn til innskatts.
Í 2. mgr. 21. gr. kemur fram, að í uppgjöri aðila skal tilgreina fjárhæðir allra reikninga vegna útlagðs kostnaðar, ásamt tegundum kostnaðar og nöfnum seljenda. Áritað eintak uppgjörsins (samrit) skal vera bókhaldsskjal seljanda.
Að áliti ríkisskattstjóra er hins vegar heimilt að halda bifreiðagjöldum fyrir utan skattverð sem útlögðum kostnaði þótt frumrit reiknings sé skráð á bifreiðaumboðið sjálft og kaupandi fái frumrit ekki í hendur. Byggist þessi regla á því að um er að ræða opinbera gjaldtöku sem í eðli sínu beinist að kaupanda sjálfum en ekki bifreiðaumboðinu.
Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. vskl. skal við sölu, sem er að hluta til skattskyld og að hluta til undanþegin skatti, halda viðskiptum, sem eru skattskyld, greinilega aðgreindum á reikningi frá öðrum viðskiptum.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á svari við fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir