Dagsetning                       Tilvísun
27. desember 1993                            605/93

 

Rekstrarkostnaður bifreiðar – bílaleigustarfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. mars 1993, þar sem þér óskið upplýsinga ríkisskattstjóra vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af rekstri bifreiðar.

Í bréfi yðar kemur fram, að á síðasta ári tókuð þér að yður ýmis rannsóknar- og eftirlitsverkefni fyrir N, Náttúruverndarráð, Landsvirkjun o.fl. Jafnframt leigðuð þér pallbifreið yðar út sem bílaleigubifreið. Nú hafi þér fest kaup á nýrri bifreið, Toyota Double Cab sem er fyrir 5 menn og með palli. Þér hyggist leigja hana á svipaðan hátt og þá eldri, en þar sem ekki er grundvöllur fyrir rekstri bifreiðar til leiguverkefna eingöngu hafið þér ákveðið að samnýta hana einkanotum. Þar sem tekjur af leigu bifreiðarinnar eru virðisaukaskattsskyldar, þá spyrjið þér hvort virðisaukaskattur af rekstrinum fáist endurgreiddur í hlutfalli við akstur vegna leiguverkefna, t.d. gegn framvísun á akstursbók.

Til að heimilt sé að nýta sér innskattsfrádrátt vegna rekstrarkostnaðar bifreiðar að fullu eða að hluta þarf bifreiðin að uppfylla þau formskilyrði að geta talist virðisaukabifreið. Einnig má telja til innskatts öflun og rekstur bifreiða sem ætlaðar eru til bílaleigustarfsemi, sbr. 6. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 6. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Samkvæmt ökutækjaskrá er bifreið yðar skráð sem fólksbifreið í almennri notkun. Yður er því eigi heimilt að nýta yður innskattsfrádrátt vegna rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson