Dagsetning Tilvísun
1.mars 1996 724/96
Sala áfengis í auglýsingaskyni
Vísað er til bréfs yðar dags. 15. janúar 1996, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því við hvaða verð umbjóðanda yðar beri að miða þegar hann selur vín sem keypt er til nota í auglýsingaskyni.
Í bréfi yðar segir:
“Hluti markaðsstarfsemi félagsins felst m.a. í því að kaupa og afhenda áfengi í auglýsingaskyni til vínkynninga í veitingahúsum og hjá öðrum aðilum en kostnaðurinn er greiddur af erlendum umboðsaðilum félagsins………..Þegar innflutningur félagsins á áfengi hefst á næstunni, mun félagið taka áfengi af eigin lager og skrifa út reikning fyrir því á hinn erlenda umboðsaðila. Skiptir þá máli í því sambandi varðandi skil á virðisaukaskatti á hvaða verði vínið yrði selt, kostnaðarverði eða söluverði.”
Af bréfi yðar má ráða að viðskiptin séu á milli tengdra aðila en í 9. gr. virðisaukaskattslaga segir: “Við viðskipti milli skyldra eða tengdra aðila skal miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum milli ótengdra aðila.”
Samkvæmt framansögðu ber umbjóðanda yðar að selja hinum erlenda umboðsaðila vínið á söluverði, þ.e. almennu gangverði.
Ríkisskattstjóri vill benda á að hinn erlendi umboðsaðili getur í þessu tilviki fengið virðisaukaskattinn af vínkaupunum endurgreiddan sbr. reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja, sem fylgir bréfi þessu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir
Hjálagt: Reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.