Dagsetning Tilvísun
30. nóvember 1993 584/93
Sérstök skráning og endurgreiðsla til opinberra aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. ágúst 1993 þar sem því er lýst að verið sé að byrja á framkvæmdum við byggingu stofnunar sem er í senn sjúkrastofnun og dagvist fyrir einstaklinga sem haldnir eru M. Þá kemur það og fram að rekstur dagvistar M hafi í nokkur ár verið rekinn sem hluti af dagvistarkerfi Tryggingarstofnunar og háð eftirliti Heilbrigðisráðuneytisins. Spurt er :
1. Hvort húsnæðið geti notið sérstakrar skráningar.
Svar: Þeir sem byggja fasteign á eigin lóð eða leigulóð og selja hana til skattskylds aðila samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt geta sótt um sérstaka skráningu til skattstjóra sbr. reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign með breytingu skv. reglugerð nr.180/1993.
Við sérstaka skráningu fær byggingaraðili víðtækari rétt til frádráttar innskatts en hann hafði áður. Skráningin veldur því að einnig má draga frá virðisaukaskatt af þjónustu verktaka og vegna kaupa á efni sem ekki er útskattað.
Til þess að aðili geti fengið sérstaka skráningu þá þarf hann að uppfylla ákveðin skilyrði. Í umsókn um sérstaka skráningu skal tilgreina þá fasteign sem skráningunni er ætlað að ná til. Eftirtalin gögn skulu fylgja umsókn:
- Skriflegur og fullgildur kaupsamningur byggingaraðila og skattskylds aðila um fasteignina.
- Yfirlýsing kaupanda um ætluð not hans á fasteigninni.
- Skuldbinding kaupanda um yfirtöku á kvöð um leiðréttingu innskatts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, verði breyting á notkun fasteignar sem hafi í fór með sér breytingu á frádráttarrétti.
Ekkert kemur fram annað en að M ætli sjálft að eiga húsið en því aðeins er um sérstaka skráningu að ræða að húsið sé selt virðisaukaskattsskyldum aðila. Þannig yrði ekki um sérstaka skráningu að ræða ætli félagið sér að eiga húsið sjálft.
Hafi M í hyggju að kaupa húsið af byggingaraðila og hann ætli sér að fá sérstaka skráningu vegna þess, þá má geta þess að það er ekki heimilt þar sem að M er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili sbr. l. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga en þar er heilbrigðisþjónusta undanþegin skattskyldu.
2. Hvort að framkvæmdin gæti fallið undir reglugerð 248/1990, um endurgreiðslu til opinberra aðila t.d. vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu.
Svar: Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt vegna kaupa á ýmis konar vinnu og þjónustu. Þar sem hús M er í eigu sjálfseignarstofnunar en hvorki í eigu ríkis né sveitarfélags eins og áskilnaður er gerður um í l. gr. reglugerðarinnar er ekki hægt að fella hús M undir ákvæði reglugerðarinnar. Ekki breytir það neinu um niðurstöðuna þó svo að heimilinu svipi í mörgu til reksturs ríkisstofnunar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Grétar Jónasson