Dagsetning                       Tilvísun
22. apríl 1997                            798/97

 

Skattaleg meðferð á gjafa- og kynningaráfengi.

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum um meðferð áfengisgjalds og virðisaukaskatts þegar áfengi er gefið eða afhent til kynningar:

I Gjafir.

Í fyrsta lagi skal tekið fram að óheimilt er að afhenda áfengi út af eigin lager í þeim tilgangi að gefa það, sbr. meðfylgjandi fyrirmæli sem gefin voru út af fjármálaráðuneytinu, dags. 24. maí 1996, til leyfishafa áfengisheildsöluleyfis og framleiðsluleyfis. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fjallað um meðferð áfengisgjalds í því tilviki. Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 er ekki heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af áfengi sem keypt er til gjafa.

II Kynningar.

Hvað varðar meðferð áfengisgjalds þegar um er að ræða afhendingu á áfengi til kynningar út af eigin lager þá ber framleiðanda ávallt að innheimta og skila áfengisgjaldi í þeim tilvikum, sbr. 6. gr. laga nr. 96/1995, um gjald af áfengi.

Ef um er að ræða kynningu á áfengi annað hvort gagnvart seljendum áfengis eða ótilteknum hópi manna á vínveitingastöðum ber ekki að telja slíka afhendingu til virðisaukaskattsskyldrar veltu enda hafi söluaðili (aðili með vínveitingaleyfi skv. 12. gr. áfengislaga nr. 82/1969) með höndum kynninguna f.h. dreifingaraðila/framleiðanda. Virðisaukaskatt af innkaupum dreifingaraðila/framleiðanda áfengis í þessum tilgangi er jafnframt heimilt að telja til innskatts, sbr. 15. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Ríkisskattstjóri lítur svo á að afhending áfengis í þessu tilviki geti verið í þeim tilgangi að afla, viðhalda eða tryggja tekjur, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og því bæði gjaldfæranlegur og innskattshæfur kostnaður. Með kynningu áfengis er m.a. átt við það tilvik þegar áfengi er afhent söluaðila í þeim tilgangi að hann afhendi það án endurgjalds.

Dreifingaraðila/framleiðanda er óheimilt að afhenda áfengi af eigin lager til kynningar gagnvart tilteknum fyrirfram ákveðnum hópi manna sem hafa ekki með höndum sölu á áfengi þar sem slík afhending hefur einkenni gjafa, sbr. ofangreint. Eins og áður segir þá er dreifingaraðila/framleiðanda óheimilt að telja virðisaukaskatt af innkaupum til gjafa til innskatts, sbr. 5. tölul. 3.mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Slík kaup teljast ekki til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar skv. 31. gr. laga nr. 75/1981.

III Útgáfa og meðferð sölureikninga vegna viðskipta með kynningaráfengi.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, skal gefa út sölureikning við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu. Með vísan til þessa ber dreifingaraðila/ framleiðanda ávallt að gefa út sölureikning á kynningaraðila í þeim tilvikum þegar tekið er út af eigin lager. Sama gildir þegar dreifingaraðili/framleiðandi kaupir og afhendir áfengi til kynninga. Á sölureikningum sem gefnir eru út á kynningaraðila vegna kynningar skal koma fram tilefni kynningar, þ.e. kynning vegna…. og skilyrði fyrir afhendingunni s.s. hvort áfengið ber að afhenda endurgjaldslaust eða ekki. Jafnframt skal koma fram á sölureikningi tegund, magn og lýsing á hinu afhenta áfengi en fjárhæð reikningsins skal vera 0. Frumrit sölureiknings skal afhent kynningaraðila en tekið skal fram að honum er óheimilt að gjaldfæra hið móttekna áfengi. Sölureikningur sem gefinn er út í umræddum tilvikum skal því ávallt gefinn út á nafn þess sem kynnir áfengið en ítrekað skal að fjárhæð hans skal vera 0 kr.

IV Gjaldfærsla gjafa- eða kynningaráfengis.

Gjafir eru ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður. Undantekningar frá þessu eru þó tækifæris-gjafir í fríðu til viðskiptavina eða starfsmanna þegar verðmæti þeirra er ekki meira en almennt gerist, sbr. 1. tölul. 52. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Áfengi sem gefið er viðskiptavinum eða starfsmönnum í jólagjöf, í tilefni stórafmælis eða meiri háttar starfsafmælis getur því verið frádráttarbært sem rekstrarkostnaður. Heimild til gjaldfærslu er þá bundin því að ekki sé um verðmeiri gjafir að ræða en almennt tíðkast í slíkum tilvikum. Um heimild til gjaldfærslu áfengis sem notað er til kynninga gilda almenn sjónarmið 31. gr. laga nr. 75/1981, þ.e. að áfengið sé notað til að afla tekna, tryggja þær eða halda þeim við.

Rétt er að benda á að áfengi sem keypt hefur verið til endursölu og fært á vörukaupareikning ber að færa út af þeim reikningi og inn á viðeigandi gjaldareikning ef það er gefið eða notað til kynninga. Í bókhaldi aðila skulu ávallt vera skýr, rekjanleg og afstemmanleg tengsl á milli birgðabókhalds og sölubókhalds.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir

Friðgeir Sigurðsson

 

Meðfylgjandi:      Bréf fjármálaráðuneytisins dags. 24. maí 1996.