Dagsetning Tilvísun
25. júní 1993 487/93
Skattskyld starfsemi opinberra aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 18. júní 1993, þar sem óskað er eftir að ríkisskattstjóri túlki tiltekin ákvæði reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila.
1) Um 3. gr. reglugerðar nr. 248/1990
Í greininni kemur fram að „fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga…., skulu greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki“.
Spurt er hvort innheimta beri virðisaukaskatt af heildarveltu skráðrar virðisauka-skattsskyldrar starfsemi fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga, stofnana og þjónustudeilda þeirra eða einungis af þeirri vinnu véla og manna sem færð er á ákveðin verkefni.
Samkvæmt eðli máls og meginreglu 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber fyrirtækjum ríkis og sveitarfélaga, stofnunum þeirra eða þjónustudeildum, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota að innheimta virðisaukaskatt af heildarveltu hinnar skattskyldu starfsemi.
2) Um 5. gr. reglugerðar nr. 248/1990
Spurt er hvort útseld vinna sveitarfélags á vinnu sumarfólks yngri en 16 ára og skólafólks á aldrinum 16-25 ára sé virðisaukaskattsskyld, hvort sveitarfélag eigi að útskatta vinnu flokkstjóra í vinnuskóla ef hann á rétt á atvinnuleysisbótum, og hvort útskatta eigi vinnu skólafólks á aldrinum 16-25 ára ef það á rétt á atvinnuleysisbótum.
Í bréfi yðar kemur fram, að vinnuskólar, skógræktardeildir og garðyrkjudeildir sveitarfélaga selji oft út vinnu, t.d. hirðingu lóða, slátt o.fl. Þessi vinna sé undanþegin skattskyldri veltu ef um vinnu fyrir sveitarfélagið sjálft er að ræða, en álitamál sé um starfsemi sem sé í beinni samkeppni við atvinnurekstur. Einnig sé rétt að hafa í huga, að skólafólk geti átt rétt til atvinnuleysisbóta þar sem bætur miðast við vinnustundafjölda s.l. árs.
Samkvæmt 3. og 4. ml. 5. gr. reglugerðar nr. 248/1990 er starfsemi vinnuskóla með yngri en 16 ára nemendum og sumarvinna skólafólks á aldrinum 16 til 25 ára undanþegin virðisaukaskatti enda sé um að ræða aðila sem ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta. Með þessu ákvæði er verið að undanskilja virðisaukaskatti ákveðna þjónustu sem telst sambærileg þeirri sem rætt er um í 1.- 4. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Sé þjónusta þannig undanskilin virðisaukaskatti, þá skiptir ekki máli hver kaupandi er – þjónustan er ávallt undanskilin.
Öll starfsemi vinnuskóla fyrir 16 ára og yngri er undanþegin virðisaukaskatti, einnig starf flokkstjóra. Samkvæmt orðalagi og tilgangi 4. ml. 5. gr. reglugerðar nr. 248/1990, er starf flokkstjóra sumarvinnandi skólafólks á aldrinum 16-25 ára einnig undanþegið virðisaukaskatti.
Samkvæmt ótvíræðu orðalagi 4. ml. 5. gr. á.n. reglugerðar ber að útskatta sumarvinnu skólafólks á aldrinum 16-25 ára ef það á rétt á atvinnuleysisbótum.
3) Um 1. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990
Samkvæmt 1. tl. 12. gr. reglugerðarinnar skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkis-stofnunum virðisaukaskatt vegna kaupa á sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps.
Spurt er hvað átt sé við með hugtakinu „sorphreinsun“ í þessum tölulið.
Með þessu ákvæði er einungis átt við hina eiginlegu sorphirðu s.s. tæmingu ruslatunna og gáma og flutning úrgangs á ruslahauga. Ákvæðið tekur t.d. ekki til götusópunar eða hirðingu heiða og fjara landsins.
4) Um 3. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990
Samkvæmt ákvæðinu skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum þann virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á snjómokstri.
Spurt er hvort hægt sé að fallast á að hálkueyðing (salt- og sanddreifing) flokkist undir töluliðinn.
Í ákvæðinu er skýrlega tekið fram að einungis skuli endurgreiða hinum opinberu aðilum virðisaukaskatt af kaupum á snjómokstri. Ákvæðið nær því aðeins til eiginlegs snjómoksturs, en ekki til annarrar hliðstæðrar starfsemi, s.s. salt- og sanddreifingar.
5) Um 5. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990
Samkvæmt ákvæðinu skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt sem þau greiða við kaup á þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu.
Spurt er hvað átt sé við með „öðrum sérfræðingum sem þjóna atvinnulífinu“ og hvort hægt sé að aðskilja tæknivinnu sérfræðinga frá annarri almennri vinnu einstakra verkefna.
Ríkisskattstjóri lítur svo á að ákvæðið taki einungis til sérfræðinga sem lokið hafa háskólaprófi eða aldeilis sambærilegu langskólanámi.
Ekki er hægt að fá endurgreiðslu vegna sérfræðiþjónustu, ef þjónustan er veitt sem óaðskiljanlegur hluti af stærri heild, s.s. kaup á skólprörum eða samþykkt útboð á byggingu brúar þar sem innifalinn er allur kostnaður hvort sem hann stafar frá sérfræðingum eða öðrum. Sérfræðiþjónustan telst þá til aðfanga seljanda en ekki viðkomandi sveitarfélags eða ríkisstofnunar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.