Dagsetning Tilvísun
10. júní 1993 483/93
Skattskylda opinberrar stofnunar
Vísað er til bréfs yðar, dags. 27. maí 1993, og meðfylgjandi greinargerðar um Skógrækt ríkisins, þar sem þeim fyrirspurnum er beint til ríkisskattstjóra, hvort ekki sé rétt að líta á stofnunina sem fyrirtæki í landbúnaði sem alfarið sé í virðisaukaskattsskyldri starfsemi með þeirri undantekningu sem rekstur tjaldstæða er, og hvort eðlilegra sé að stofnunin skili einni sameiginlegri virðisaukaskattsskýrslu frekar en hver deild skili eigin skýrslu.
Málavextir eru þeir að fyrirhugað var að breyta hjá einni deild Skógrækt ríkisins virðisaukaskattsskyldri veltu, útskatti og innskatti vegna rekstrarársins 1991. Þannig átti hækkun útskatts að stafa af sölu deildarinnar til annarra deilda Skógræktarinnar og lækkun innskatts vegna þess að hluti af afhentum plöntum var án virðisaukaskatts. Í þessu sambandi hefur Skógræktarstjóri bent á að rekstur Skóræktarinnar sé mjög dreifður um allt land, stofnunin sé deildarskipt og hver deild haldi utan um eigin sölu og rekstur, færi fjárhags- og sölunótukerfi og standi skil á virðisaukaskatti á hverjum stað. Einnig hefur komið fram í málinu að í samráði við landbúnaðarráðuneytið, ríkisendurskoðun og ríkisbókhald hafi eftirfarandi vinnulag verið ákveðið varðandi virðisaukaskattsskil Skógræktar ríkisins:
- Innheimtur verði virðisaukaskattur af allri plöntusölu og annarri afurðarsölu út fyrir stofnunina.
- Plöntur í eigin gróðursetningu stofnunarinnar verði færðar sem millifærsla innan Skógræktar ríkisins án virðisaukaskatts.
- Öll aðföng er beri virðisaukaskatt, hvort sem um sé að ræða framleiðslu á plöntum til eigin nota eða fyrir almenna sölu verði notuð til innskattsfrádráttar, þar sem hér sé um að ræða fjárfestingu sem skili sér seinna sem endanleg afurð, jólatré, girðingarstaurar, timbur o.s.frv.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að í 3. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, segir m.a. að ríkisstofnanir, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota, skulu greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Að áliti ríkisskattstjóra ber að skilja ákvæði þetta þannig að gjaldtaka ríkisstofnana vegna starfsemi sem þær hafa með höndum í krafti opinbers valds hafi ekki í fór með sér skyldu til að innheimta virðisaukaskatt, enda er þá ekki á valdi annars en viðkomandi stofnunar að veita sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum. Jafnframt felst í ákvæðinu að þjónusta sem opinber stofnun veitir án þess að henni sé það skylt skv. lögum er ekki skattskyld nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum.
Ríkisskattstjóri lítur svo á, að millifærsla plantna til eigin nota innan deilda Skógræktarinnar sé þáttur í lögbundinni starfsemi stofnunarinnar og ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki, og því án virðisaukaskatts. Öll sala út fyrir stofnunina, sem rekin er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, er aftur á móti skattskyld starfsemi.
Skógrækt ríkisins er A-hluta ríkisstofnun og gilda því um stofnunina þær reglur virðisaukaskattslaga er varða ríkisstofnanir. Ekki er hægt að fallast á að Skógrækt ríkisins sé venjulegt atvinnufyrirtæki í landbúnaði.
Eðlilegt þykir að Skógrækt ríkisins skili einni sameiginlegri virðisaukaskattsskýrslu fyrir allar deildir sínar.
Skógræktin getur einungis talið til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 16. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. 10. gr. innskattsreglugerðar nr. 192/l993.
Um skiptingu milli skattskylds og óskattskylds þáttar í afhendingu plantna frá Skógrækt ríkisins, fer eftir almennum reglum, enda er bókfært verð millifærðra planta það sama og á almennum markaði. Þannig er heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem einungis varða sölu plantna út fyrir stofnunina í sama hlutfalli og sala skattskyldrar vöru og þjónustu hvers reikningsárs er af heildarupphæð plöntuafhendinga ársins. Sömu reglur gilda um skiptingu milli skattskylds og óskattskylds þáttar vegna sölu Skógræktarinnar á öðrum skattskyldum vörum.
Það skal tekið fram, að ákvæði innskattsreglugerðar um skiptingu innskatts vegna blandaðrar starfsemi, taka ekki til opinberra stofnana.
Virðingarfyllst,
f h. ríkisskattstjóra .
Bjarnfreður Ólafsson.