Dagsetning                       Tilvísun
29.09.2006                              14/06

 

Skattskyldusvið virðisaukaskatts – námskeið fyrir gæludýraeigendur og starfsmenn gæludýraverslana
Vísað er til bréfs yðar, dags. 1. september 2006, þar sem óskað er upplýsinga um það hvort tiltekin námskeið séu virðisaukaskattsskyld. Annars vegar sé um að ræða námskeið fyrir gæludýraeigendur um ýmsa þætti sem varða gæludýraeign, t.d. um uppeldi hvolpa og ráðgjöf vegna gots. Hins vegar fræðslunámskeið fyrir starfsmenn í gæludýraverslunum um umhirðu og aðbúnað ýmissa algengra gæludýra.

Til svars fyrirspurn yðar skal tekið fram að skattskylda skv. lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Undanþágur frá framangreindri meginreglu eru tæmandi taldar í 3. mgr. greinarinnar.

Samkvæmt 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, er rekstur skóla og menntastofnana, svo og ökukennsla, flugkennsla og danskennsla undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt segir svo um þetta ákvæði:

„Við mat á því hvort nám telst skattfrjálst er eðlilegt að hafa hliðsjón af því hvort boðið er upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu skattfrjáls. Ekki nægir þó í þessu sambandi að boðið sé upp á námsgreinina eða námsbrautina í einstökum skólum heldur verður námið að hafa unnið sér fastan og almennan sess í skólakerfinu.“

Við túlkun ákvæðisins hefur ríkisskattstjóri að auki litið svo á að nám sem felur í sér faglega menntun sé undanþegið skattskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Með faglegri menntun er átt við kennslustarfsemi sem miðar að því að viðhalda eða auka þekkingu nemenda eingöngu vegna atvinnu þeirra. Á hinn bóginn er gengið út frá því að námskeið séu skattskyld ef þjónustan virðist veitt vegna tómstunda manna.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat ríkisskattstjóra að námskeið fyrir gæludýraeigendur um ýmsa þætti er varða gæludýraeign falli undir skattskyldusvið laga um virðisaukaskatt og ber yður því að innheimta og skila virðisaukaskatti af námskeiðsgjöldum, enda hafa námskeið af slíkum toga ekki unnið sér sess í hinu almenna skólakerfi.

Á hinn bóginn verður af fyrirspurn yðar ekki annað ráðið en að þau námskeið er standa starfsmönnum gæludýraverslana til boða séu til þess fallin að viðhalda og auka þekkingu nemenda vegna atvinnu þeirra, enda verður að ganga út frá því að þekking á umhirðu og aðbúnað gæludýra sé nauðsynleg starfsmönnum gæludýraverslana. Slík námskeið eru undanþegin virðisaukaskatti, sbr. framanritað.

Á það skal bent að aðili sem hefur með höndum blandaða starfsemi, þ.e. stundar bæði undanþegna og virðisaukaskattsskylda starfsemi, verður í bókhaldi sínu og á sölureikningum að aðgreina með skýrum hætti þær tekjur sem hann hefur vegna hvorrar starfsemi um sig. Sé sú aðgreining ekki gerð ber að innheimta virðisaukaskatt af allri starfseminni.

 

Ríkisskattstjóri