Dagsetning                       Tilvísun
24. nóvember 1993                            579/93

 

Skipasmíði

Vísað er til bréfs yðar, dags. 10. nóvember 1993, þar sem óskað er eftir formlegu svari ríkisskattstjóra vegna fyrirspurnar um undanþágu á innheimtu virðisaukaskatts í því tilfelli að slippstöð smíðar og setur upp frystikerfi í nýsmíði skips hjá tiltekinni skipa-smíðastöð.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er undanþegin skattskyldri veltu skipasmíði og viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra, svo og efni og vörur sem það fyrirtæki, sem annast viðgerðina, notar og lætur af hendi við þá vinnu. Undanþága þessi nær þó ekki til skipa sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða einkaloftfara.

Þeir sem selja skipasmíði eða viðgerðarþjónustu við skip eða loftför eða fastan búnað þeirra geta þannig haldið sölunni utan skattskyldrar veltu. Undanþágan er skýrð þannig að hún taki aðeins til þeirra aðila sem selja viðkomandi útgerðaraðila eða flugrekstraraðila þjónustuna, en ekki er talið að skýra megi undanþáguna svo rúmt að hún nái einnig til undirverktaka við skipa- eða flugvélaviðgerðir. Undanþáguákvæðið nær því eigi til þess tilviks þegar þjónustan er seld til annarra aðila en útgerðar- eða flugrekstraraðila, t.d. skipasmíðastöðvar eða annars aðalverktaka.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson