Dagsetning Tilvísun
24. feb. 1993 458/93
Skráning nýrra rekstraraðila.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. sept. 1992, þar sem spurt er um skráningu sameignarfélagsins Y sem virðisaukaskattsskylds aðila.
Aðstæður geta verið með þeim hætti að eðlilegt sé að skrá aðila skv. 5. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, þótt velta hans sé undir lágmarki skv. 3. tl. 4. gr. Þetta verður þó aðeins gert samkvæmt beiðni aðila. Skattstjóra er rétt að verða við beiðni aðila um skráningu ef hann telur að eftirfarandi atriði eigi við aðila:
- Að um sé að ræða atvinnustarfsemi, þ.e. starfsemi sem miðar að rekstrarhagnaði eftir eðlilegan uppbyggingartíma.
- Að fjárfesting aðila í varanlegum rekstrarfjármunum, þ.m.t. fasteignum, eða vörubirgðum sé veruleg á sama tíma og eðlilegt er vegna eðlis starfseminnar að hún skili ekki rekstrartekjum. Ekki er nægilegt að aðili hafi verulegan kostnað af virðisaukaskatti vegna almenns rekstrarkostnaðar.
- Að fjárfesting aðila standi í beinum tengslum við væntanlega sölu hans á skattskyldum vörum og þjónustu.
- Að allar líkur bendi til þess að sala aðila á skattskyldum vörum og þjónustu verði yfir lágmarki skv. 3. tl. 4. gr. á fyrstu 12 mánuðum eðlilegrar starfsemi, þ.e. eftir að starfsemin fer að skila rekstrartekjum.
Skattstjóri verður að meta í einstökum tilvikum hvort framangreindar reglur eigi við um aðila. Má þar m.a. taka mið af því hvernig fjármögnun uppbyggingar fyrirtækis er hagað, t.d. hvort lán hafi fengist til starfseminnar frá banka eða atvinnuvegasjóði.
Jafnvel þótt fjárfesting aðila sé veruleg getur verið vafasamt að skattskyld sala hans verði yfir lágmarki skv. 3. tl. 4. gr. laga um virðisaukaskatt. Það getur jafnvel verið óljóst hvort starfsemin muni yfirleitt skila tekjum. Í þessum tilvikum ber að synja um skráningu, en skattstjóri skal vekja athygli aðila á því að hann geti fengið skráningu þegar er sala hefst. Má þá ákveða skatt fyrir þau uppgjörstímabil sem liðin eru frá því umsókn um skráningu barst upphaflega. Með þessu móti getur aðili fengið endurgreiddan innskatt vegna fjárfestinga sinna á undirbúningstíma.
Ríkisskattstjóri vill að lokum benda yður á að beina fyrirspurn yðar til skattstjóra, en eins og áður segir þá metur hann í einstökum tilvikum hvort framangreindar reglur eigi við um aðila. Hægt er að fá úrskurð skattstjóra um málið og verði þér eigi sáttir á niðurstöðu hans, þá er hægt að skjóta úrskurði til yfirskattanefndar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.