Dagsetning Tilvísun
7. feb. 1990 18/90
Söluskattur af birgðum um áramót.
Að gefnu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:
Ýmsir aðilar eiga byggingarefni o.fl. í birgðum um áramót sem þeir hafa keypt með söluskatti 1989 eða fyrr.
Byggingaraðilar og seljendur byggingarþjónustu geta fengið endurgreiddan þennan söluskatt með vissum skilyrðum. Verið er að ganga frá reglugerð um það efni. Með byggingaraðilum er átt við þá sem hafa húsbyggingar eða aðra mannvirkjagerð með höndum í atvinnuskyni – þ.e. byggja og selja fyrir eigin reikning (aðilar sem falla undir 2. gr. reglug. nr. 576/1989, um byggingarstarfsemi). Með seljendum byggingarþjónustu er átt við verktaka, þá sem stunda byggingarstarfsemi á kostnað annars. Undir þetta falla einnig aðilar eins og B-hluti Vegagerðarinnar (sem litið er á eins og hvern annan verktaka og útskattar til A-hlutans) og vélamiðstöðvar sveitarfélaga, sem falla undir 3. gr. reglug. nr. 561/1989, um greiðslu vsk. af skattskyldri starfsemi sveitarfélaga o.fl.
Aðrir sem kunna að eiga efni með söluskatti um áramót fá ekki endurgreiðslu samkvæmt þessum reglum. Þannig fá t.d. orkusölufyrirtæki ekki endurgreiddan söluskatt af efni sem
þau kunna að eiga og nota til eigin þarfa. Sama gildir um þá starfsemi sveitarfélags sem fellur undir 4. gr. reglug. nr.561/1989.
Söluskattur fæst ekki endurgreiddur af varahlutum sem rekstraraðilar kunna að eiga á lager um áramót og ætlaðir eru til eigin nota.
Nauðsynlegt er að skattstjórar athugi sérstaklega frádráttarliði á söluskattsskýrslu fyrir desembermánuð 1989 í ljósi ofanritaðs.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón Guðmundsson
forstöðum.gjaldadeildar.