Dagsetning Tilvísun
7. febrúar 1997 783/97
Starfsemi apóteks í eigu opinberrar stofnunar – virðisauka- og tekjuskattsskylda
Vísað er til bréfs yðar, dags. 31. janúar sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á virðisaukaskattsskyldu Sjúkrahússapóteks ásamt því hvort hlutafélagið sem rekur starfsemina og er að öllu leyti í eigu opinberra aðila sé skattskylt til tekju- og eignarskatts.
Í bréfi yðar eru settar fram eftirfarandi fyrirspurnir:
1) Fellur þjónusta lyfjafræðinga og aðstoðarmanna þeirra við deildir sjúkrahússins og inniliggjandi sjúklinga undir 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, þ.e. önnur heilbrigðisþjónusta, sem er undanþegin virðisaukaskatti?
2) Ef þjónusta lyfjafræðinga skv. ofangreindu fellur ekki undir undanþáguákvæði 2. gr. fellur hún þá undir 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, þ.e. um endurgreiðslu til opinberra aðila við kaup á þjónustu sérfræðinga sem þjónusta atvinnulífinu?
3) Fellur hlutafélag, sem er 100% í eigu opinberrar stofnunar og ver hagnaði sínum í samræmi við 5. tölulið 4. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt undir ákvæði 4. gr. um undanþágu frá skattskyldu?
Fyrirspurnum yðar verður svarað í þeirri röð sem þær eru settar fram í bréfi yðar.
1) Að áliti ríkisskattstjóra þykir ljóst að starfsemi sjúkrahússapóteks sem er fólgin í sölu á lyfjum er virðisaukaskattsskyld skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Hvað varðar sölu apóteka almennt á þjónustu lyfjafræðinga og aðstoðarmanna þeirra þá er jafnframt ljóst að sú þjónusta tengist sölu eða afhendingu lyfja sem er virðisaukaskattsskyld vörusala. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að umrædd þjónusta lyfjafræðinga sjúkrahússapóteksins geti fallið undir undanþáguákvæði 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem eiginleg heilbrigðisþjónusta.
2) Samkvæmt því sem áður var rakið, þ.e. að litið er á umrædda þjónustu lyfjafræðinga apóteksins sem þjónustu í tengslum við sölu lyfjanna, og það að líta verður á þjónustuna sem óaðskiljanlegan hluta af þeirri lyfjasölu verður ekki talið að um sé að ræða þjónustu sem er endurgreiðsluhæf á grundvelli 5. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila.
3) Undanþága sú sem kveðið er á um í 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, getur tekið til allra lögaðila sem tilgreindir eru í 2. gr. sömu laga. Þetta getur því allt eins átt við um hlutafélög.
Af bréfi yðar má ráða að þér teljið að hlutafélag það sem fyrirhugað er að stofna um rekstur apóteks, muni uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 5. tölul. 4. gr. Hins vegar er ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því áliti og getur því ríkisskattstjóri ekki að svo stöddu skorið úr um það atriði. Almennt séð verður þó að telja ólíklegt að rekstur í hlutafélagsformi, með hugsanlegum arðgreiðslum til eigenda, falli undir ákvæði 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Virðingarfyllst.
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.
Friðgeir Sigurðsson.