Dagsetning Tilvísun
24. ágúst 1993 524/93
Starfsemi eftirlaunasjóðs
Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. september 1990, til skattstjórans í Reykjanesumdæmi, sem framsent var til embættis ríkisskattstjóra þann 12. september 1990, þar sem þér óskið eftir álit ríkisskattstjóra á því, hvort eftirlaunasjóður starfsmanna H teljist fyrirtæki og/eða stofnun H, sbr. reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af starfsemi opinberra aðila.
Í bréfi yðar kemur fram, að sjóðurinn starfar í aðalatriðum eins og Lífeyrissjóður ríkisins. Fram til ársins 1989 var rekstrarkostnaður greiddur af H og umsjón sjóðsins hafði bæjarritari, en með auknum umsvifum og reglugerðarbreytingu var þessu breytt. Sjóðurinn greiðir í dag rekstrarkostnað, en bærinn ábyrgist allar skuldbindingar hans, þannig að þarnar er eingöngu um breyttar starfsaðferðir en ekki ábyrgðir. Iðgjöld greiðir bærinn til sjóðsins ásamt greiðslum bæjarsjóðs á lífeyrishækkunum er ástæða þess að fjármagnsmyndun er jákvæð frekar en neikvæð. Rétt sé að hafa það til hliðsjónar, að ef fjármagn sjóðsins gengur til þurrðar, þá sér bæjarsjóður alfarið um allar skuldbindingar.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að í skilningi virðisaukaskattslaga yrði starfsemi eftirlaunasjóðsins talin til lífeyrissjóða, en skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana (þ.m.t. þjónusta lífeyrissjóða), svo og verðbréfamiðlun undanþegin virðisaukaskatti.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson