Dagsetning Tilvísun
26. ágúst 1993 518/93
Starfsvið blaðamanna
Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. maí 1993, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af starfsemi blaðamanna vegna tilkomu 14% skattlagningar á bækur og tímarit frá og með 1. júlí 1993.
Í bréfi yðar kemur fram að þér starfið sjálfstætt sem lausamaður í blaðamennsku („freelance“). Þér hafið unnið öll venjuleg störf sem heyra undir starfsvið blaðamanna, svo sem ritun greina og viðtala og ritstjórn. Þá hafið þér samhliða skrifað nokkrar bækur.
Starfsemi rithöfunda er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 12. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þ.m.t. sú starfsemi að rita greinar í blað eða tímarit gegn gjaldi. Atvinnustarfsemi sem felst í því að búa ritsmíðar annarra manna undir prentun (útgáfuþjónusta) er hins vegar virðisaukaskattsskyld.
Tilkoma nýs skattþreps virðisaukaskatts, sbr. 43. gr. laga nr. 111/1992, um breytingar í skattamálum, hefur engin áhrif á virðisaukaskattsskyldu rithöfunda og blaðamanna skv. 12. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson