Dagsetning Tilvísun
23. nóvember 1994 654/94
Tapaðar viðskiptakröfur (hlutabréf).
Vísað er til bréfs yðar dags. 14. júlí 1994, vegna umbjóðanda yðar B, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort, tapað hlutafé sbr. 4. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt, geti talist töpuð útistandandi viðskiptakrafa skv. 2. tl. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Í bréfi yðar segir meðal annars. B tók á árinu 1990 við hlutabréfum í V, sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu sem það átti á hendur því fyrirtæki. V. átti á þessum tíma í greiðsluerfiðleikum. Þann 8. apríl 1994 var V úrskurðuð gjaldþrota og varð þá endanlega ljóst að hlutafjáreignin var töpuð. Í kjölfarið taldi B fjárhæð tapaðs hlutafjár til frádráttar tekjum ársins 1993 við gerð ársreiknings fyrir það ár í samræmi við 1. mgr. 4. tl. 31. gr. tekjuskattslaga nr. 75/1981.
Fyrirspurn B er eftirfarandi: Er heimilt að túlka ákvæði 2. tl. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, er segir að við uppgjör á skattskyldri veltu sé seljanda heimilt að draga frá 80.32% af töpuðum útistandandi viðskiptakröfum, svo að það heimili endurgreiðslu virðisaukaskatts úr hendi ríkissjóðs, þegar hlutafé sem tekið hefur verið sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu, með sama hætti og segir í 1. mgr. 4. tl. 31. gr tekjuskattslaga, tapast og hin upphaflega viðskiptakrafa stafar af virðisaukaskattskyldri sölu á vöru eða þjónustu? Með öðrum orðum, á B rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna ofangreindra viðskipta?
Ljóst er að B átti á árinu 1990 möguleika á að reyna til fullnustu að krefja Verksteypuna um greiðslu kröfunnar. Væntanlega hefði þá lítið sem ekkert fengist upp í kröfuna. Hefði B þá átt þess kost að telja hina töpuðu kröfu til frádráttar tekjum og að fá endurgreiðslu virðisaukaskatts í samræmi við 2. tl. 5. mgr. 13. gr. virðisaukaskattslaga. B valdi hins vegar þá leið að taka hlutafé upp í viðskiptakröfu sína og beita þannig tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir afskrift hennar. Með þessu stuðlaði fyrirtækið einnig að bættum möguleikum V til þess að koma sér út úr fjárhagsvandræðum sínum þó að sú tilraun hafi á endanum mistekist.“
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að samkvæmt ákvæði 2. tl. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, er skráðum aðila heimilt að draga frá skattskyldri veltu að 80,32 hundraðshlutum tapaðrar útistandandi viðskiptaskuldir vegna sölu sem áður hefur verið talin til skattskyldrar veltu.
Það er skilyrði fyrir leiðréttingu á skattskyldri veltu vegna tapaðra krafna að skuld sé sannanlega töpuð og að skýrt komi fram í bókhaldsgögnum á hverju það sé byggt að telja útistandandi viðskiptaskuld tapaða og hvað hafi verið aðhafst til að innheimta skuld.
Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt segir um ákvæði 2. tl. 5. mgr. 13. gr. „Það skal sérstaklega tekið fram vegna ákvæða 2. tl. 5. mgr. að reglur laga um tekju- og eignarskatt um það hvenær draga má tapaðar viðskiptakröfur frá atvinnurekstrartekjum, sbr. 3. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, skulu gilda varðandi heimild þá sem hér um ræðir.“
Áðurnefnt ákvæði virðisaukaskattslaga heimilar ekki sambærilegan frádrátt og er að finna í 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignarskatt. Engin sambærileg breyting sbr. lög nr. 63/1990, hefur verið gerð á lögum um virðisaukaskatt og því engin sambærileg ákvæði í lögunum um virðisaukaskatt, hvað varðar tapað hlutafé, sem eigandi hefur eignast á þann hátt, er 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 75/981 kveður á um.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir