Dagsetning Tilvísun
29. febrúar 1996 723/96
Tekjuskráning greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins vegna lyfja og hjálpartækja.
Af gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri koma á framfæri eftirfarandi leiðbeiningum varðandi tekjuskráningu á greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins vegna lyfja og hjálpartækja.
Að áliti ríkisskattstjóra er lyfsölum heimilt að skrá þann hluta heildarandvirðis seldra lyfja og hjálpartækja sem greiddur er af Tryggingastofnun á þann hátt að gefa út sölureikning og skrá tekjur þegar gert er upp við stofnunina. Skilyrði er að sölureikningur sé gefinn út í síðasta lagi í lok hvers mánaðar vegna þeirrar sölu sem fram fer frá upphafi til loka viðkomandi mánaðar. Að áliti embættisins er þessi aðferð öruggari þar sem tekjuskráning á grundvelli lyfseðla reynist oft ónákvæm og ekki í samræmi við þá kostnaðarþátttöku sem fram kemur í endanlegri greiðslu Tryggingastofnunar.
Að lokum skal bent á að álit ríkisskattstjóra frá 14. janúar 1991 (nr. 205/91) sem fjallar um tekjuskráningu greiðslna frá Tryggingarstofnun ríkisins gildir áfram að öðru leyti og er því einnig heimilt að nota þá aðferð við tekjuskráningu sem þar er lýst.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.