Dagsetning                       Tilvísun
19. apríl 1991                             266/91

 

Tekjuskráning póstkröfusölu.

Ráðuneytið hefur sent ríkisskattstjóra til umsagnar erindi S, dags. 1. mars 1991, um skráningu tekna vegna sölu í póstkröfu.

Af þessu tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram að skv. l. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst heildarskattverð allra vara sem afhentar hafa verið á hverju uppgjörstímabili til skattskyldrar veltu tímabilsins. Samskonar regla gildir um vinnu og þjónustu. Í 2. mgr. 13. gr. er síðan að finna þá skýringarreglu að ef gefinn er út reikningur vegna afhendingar telst hún hafa farið fram á þeim degi sem tilgreindur er á reikningi, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu.

Eftir athugun erindis S er það álit ríkisskattstjóra að smásöluverslun, sem ekki gefur út reikning vegna sölu sinnar, sé rétt að telja vöru, sem seld er gegn póstkröfu, afhenta í skilningi l. mgr. 13. gr. þegar kaupandi leysir vöruna út úr pósthúsi. Gefi seljandi út reikning þegar um kaup er samið (pöntun gerð) eða við afhendingu til pósthúss gildir ákvæði 2. mgr. 13. gr. og miðast tekjuskráning þá við útgáfudag reikningsins.

Tekið skal fram að við skýringu ríkisskattstjóra er bæði litið til eðlis þeirra viðskipta sem hér um ræðir, svo og til úrskurða ríkisskattanefndar um sama atriði í gildistíð söluskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón Guðmundsson,
forstm. virðisaukaskattsdeildar.