Dagsetning Tilvísun
07.04.2004 04/04
Tekjuskráning – skil á virðisaukaskatti – þagnarskylda skattyfirvalda
Með bréfi dagsettu 1. mars 2004 barst ríkisskattstjóra erindi frá samtökunum. Í erindinu kemur fram að Grandi hf. hafi staðið að svokölluðum ýsudögum síðustu helgina í febrúar og selt ýsu úr tjaldi á athafnasvæði sínu. Óska samtökin eftir umsögn ríkisskattstjóra um það hvort tekjuskráning Granda hf. hafi verið í samræmi við lög og reglur þar sem ekki varð séð að sjóðvélar hafi verið notaðar við skráningu sölunnar.
Til svars fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-lög), sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, skal seljandi gefa út reikning við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu. Sölureikningur skal uppfylla skilyrði 20. gr. vsk-laga, sbr. 3.-5. gr. reglugerðarinnar. Smásöluverslanir og þjónustusalar sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda skulu annað hvort gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu sína eða skrá sérhverja afhendingu á vöru eða þjónustu í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Sérhver aðili skal nota sömu aðferð við skráningu allrar sölu sinnar. Ef aðstæður krefjast má þó víkja frá þessari reglu og skrá staðgreiðslusölu í sjóðvél en færa sölu gegn greiðslufresti, pöntunarsölu eða annan afmarkaðan þátt sölu á sölureikninga enda sé það skýrt afmarkað í skriflegri yfirlýsingu í bókhaldsgögnum hvernig tekjuskráningu er hagað, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar. Í fylgiskjali með reglugerðinni er að finna upptalningu á þeim verslunum og þjónustuaðilum sem falla undir ákvæði 8. gr. reglugerðarinnar. Eru þar m.a. tilteknar torgverslanir, sem slíka starfsemi stunda að staðaldri, og fiskverslanir.
Í 10. gr. reglugerðarinnar nr. 50/1993 er kveðið á um að ríkisskattstjóri geti heimilað notkun annars konar söluskráningarkerfis en að framan getur, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, sem valda seljanda verulegum vandkvæðum eða óhagræði af að skrá sölu sína í sjóðvél eða á fyrirfram tölusetta reikninga. Í ákvæðinu er tiltekið að ríkisskattstjóri geti m.a. heimilað notkun staðgreiðslusölulista eða staðgreiðslusöluyfirlit. Samkvæmt bókum embættisins hefur ríkisskattstjóri ekki veitt Granda hf. heimild á grundvelli framangreindrar 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993.
Í ljósi þagnarskyldu sem á skattyfirvöldum hvíla tjáir ríkisskattstjóri sig ekki um skattskil einstakra fyrirtækja með þeim hætti sem hér er farið fram á. Þá þjónar það almennt ekki eftirlitshagsmunum að ríkisskattstjóri tjái sig um hugsanlegar eftirlitsaðgerðir gegn einstökum gjaldendum eða hópum þeirra. Ríkisskattstjóri svarar erindi samtakanna því ekki með öðrum hætti en að framan er gert, en þakkar þá ábendingu sem í erindinu fólst.
Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra